13 Maí 2022 10:25

Í gær fór fram formleg opnun á Virtice, sýndardómsal sem fyrirtækið Statum hannaði fyrir þolendur kynferðisbrota.

Sigríður Björk Guðjónsdótti, ríkislögreglustjóri, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa stutt verkefnið frá hugmyndastigi og óskuðu frumkvöðlunum til hamingju með að vera komin með tilbúna vöru í hendurnar sem sannarlega verður til þess að bæta þjónustu við þolendur kynferðisbrota.

Verkefnið hófst árið 2019 og eru Edit Ómardóttir, Hafdís Sæland og Helga Margrét Ólafdóttir frumkvöðlarnir sem ýttu því úr vör, en á þeim tíma voru þær að læra tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Þörfin á betri lausnum fyrir þolendur heimilisofbeldis og kynferðisbrota vakti athygli þeirra og út frá þeim neista hófu þær samstarf við ríkislögreglustjóra, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og þolendur við að þróa nýja þjónustuleið í formi dómsals í sýndarveruleika.

Nú er sýndardómsalurinn orðinn að veruleika og mun þessi þjónusta standa öllum til boða. Meira um Virtice á www.statum.is

 

Statum