15 September 2008 12:00
Þriðjudaginn 9. september s.l. hófu 16 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Önnin stendur yfir í fjóra mánuði og í janúarbyrjun 2009 hefja þessir nemendur átta mánaða starfsþjálfun hjá einhverju af 15 lögregluembættum landsins.
Meðalaldur hópsins er með því allra hæsta sem verið hefur, ef ekki sá hæsti, 28,88 ár. 5 konur eru í hópi nýnemanna eða 31,25% og það er sömuleiðis hátt hlutfall samanborið við fyrri ár.
Reynsla nýnemanna er fjölbreytt, í hópnum eru m.a. kennari, viðskiptafræðingur, húsasmiður, málari, ráðgjafi í barnaverndarmálum, tollvörður, fangavörður og íþróttafræðingur.
Tómstundaiðkun hópsins er einnig fjölbreytt og má þar nefna skotveiðar, golf, kappakstur, veiðimennsku, svifdrekaflug, hestamennsku, knattspyrnu, handbolta og tónlist.
Einn nemandi var sérstaklega boðinn velkominn í skólann, Aleksandra Wójtowicz. Aleksandra er fædd og uppalin í Póllandi en fluttist til Íslands árið 1996, þá 18 ára gömul. Hún varð íslenskur ríkisborgari árið 2001 og hefur talsvert starfað með lögreglunni á Eskifirði sem túlkur. Ekki er að efa að Aleksandra verður öflug viðbót við íslensku lögregluna þegar hún, að loknu grunnnámi við skólann, fer að starfa sem lögreglumaður.
Þótt svo að tilhögun grunnnáms á fyrstu önn sé nokkuð hefðbundin hafa, í ljósi reynslunnar og í kjölfar ábendinga, nokkrar breytingar verið gerðar.
Fyrst ber að nefna fyrirlestraröð sérfræðinga um streitu- og tilfinningastjórnun þar sem markmiðið er að undirbúa nemendur enn betur en gert hefur verið undir að takast á við erfiðar tilfinningar og hugsanir sem þeir geta upplifað í lögreglustarfinu.
Hin breytingin á fyrstu önn grunnnáms sem vert er að nefna er sú að í stað þess að kenna nemendum skyndihjálp, sem fyrst og fremst er ætluð almenningi, er þeim nú kennd fyrsta hjálp sem er ætluð lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. Oft er lögregla fyrst viðbragðsaðila á vettvang, þarf að gera fyrstu vettvangsathugun og taka ákvarðanir, jafnvel veita fyrstu hjálp meðan beðið er eftir heilbrigðisstarfsfólki.
Auk þessara 16 nýnema eru nú 33 nemendur við nám á þriðju og síðustu önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins og samtals eru grunnnámsnemendur því 49. Nám á þriðju önn hófst þann 2. september s.l. og því lýkur með brautskráningu frá Bústaðakirkju föstudaginn 12. desember n.k. Þeir nemendur sem þá verða brautskráðir geta að grunnnáminu loknu sótt um laus störf lögreglumanna í lögreglu ríkisins.
Þess má geta að þann 18. apríl s.l. voru 45 nemendur brautskráðir frá Lögregluskóla ríkisins og því verða alls 78 nemendur brautskráðir þaðan árið 2008. Þeir hafa aldrei verið fleiri á einu ári.
Að lokum skal nefna nýmæli varðandi starfsemi grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Tveir starfsmenn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi embættisins og Sigurður Arnarsson, sérfræðingur í tölvurannsókna- og rafeindadeild, munu sitja í tilteknum kennslustundum á fyrstu og þriðju önn. Hvorugur þeirra er menntaður lögreglumaður og mun Gunnar Rúnar sitja kennslustundir í lögfræðigreinum, Sigurður kennslustundir í skýrslugerð. Með þessu munu þeir fá aukna þekkingu á störfum lögreglunnar og því vera betur fallnir til að takast á við störf sín og að starfa með lögreglumönnum.