21 Desember 2018 10:39

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú birt niðurstöður könnunar um reynslu landsmanna af afbrotum á undangengnu ári og öryggistilfinningu íbúa árið 2018. Niðurstöður sýna að um fjórðungur landsmanna á aldrinum 18 ára og eldri urðu fyrir a.m.k einu broti árið 2017, en spurt er um eigin reynslu af ofbeldisbroti, eignaspjöllum, innbroti, þjófnaði og kynferðisbroti. Eins og undanfarin ár þá urðu flestir fyrir eignaskemmdum (17%) , þjófnaði (8%) eða innbroti (7%). Einnig var spurt um ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka, netbrot og kynferðislega myndbirtingu.

Flestir telja að umferðarlagabrot sé helsta vandamálið í þeirra byggðarlagi eða hverfi. Þegar gögnin er rýnd niður á umdæmi má sjá að á Norðurlandi eystra (39%) og í Vestmannaeyjum telja (46%) að fíkniefnabrot séu eitt helsta vandamálið en íbúar á höfuðborgarsvæðinu telja að innbrot sé eitt helsta vandamálið í eigin hverfi.

Í könnuninni 2018 var í annað sinn spurt um algengi netbrota, en 5% landsmanna 18 ára og eldri urðu fyrir fjárhagslegu tjóni vegna brota í gegnum net- og síma árið 2017 en árið 2016 var það hlutfall 1,5%. Flestir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni vegna svika við verslun á netinu eða misnotkun á kortanúmeri, en 65% þeirra töpuðu 20 þúsund krónum eða minna.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.

Þá tók Félagsvísindastofnun saman skýrslu um viðhorf almennings til þjónustu og starfa hennar, en þær spurningar voru hluti af sömu könnun, sjá hér.

Um könnunina

Um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir 5.200 landsmenn 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd af Félagsvísindastofnun fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var um 55%. Gögnin voru vigtuð til þess að endurspegla þýði sem best með tilliti til búsetu, aldurs, menntunar og kyns.