22 Maí 2023 13:50
  • Rúmlega helmingur árásaraðila og árásarþola er undir 36 ára í heimilisofbeldismálum tilkynntum lögreglu.
  • Litlar breytingar á milli ára í fjölda mála tilkynnt til lögreglu.
  • Vísbendingar um fjölgun tilvika um ágreining og fækkun tilvika heimilisofbeldis.

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir fyrstu 3 mánuði ársins 2023 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar.

Lögreglan á landsvísu fékk 598 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila á tímabilinu janúar til mars. Jafngildir það að meðaltali tæplega 7 slíkum tilkynningum á dag eða 199 tilkynningum á mánuði. Ekki er um mikla breytingu á milli ára, en tilkynningum fækkar um tæplega 2% samanborið við sama tímabil á síðasta ári.

Oftar skráður ágreiningur
Fyrstu þrjá mánuði ársins voru skráð 268 tilvik heimilisofbeldis eða tæplega 5% fækkun miðað við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára á undan og 330 tilvik ágreinings milli skyldra/tengdra aðila eða tæplega 27% fjölgun samanborið við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára.

Lögreglan skilgreinir heimilisofbeldi sem brot sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Grunur getur þá verið um brot á borð við líkamsárásir, hótanir, eignaspjöll o.fl. og virkjast þá verklag ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.

Rúmlega helmingur árásaraðila og -þola undir 36 ára
Í um 78% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í tæplega 70% tilvika var árásarþoli kona. Um 40% árásaraðila var á aldrinum 26-35 ára. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka eru um 81% árásaraðila karlar og 77% brotaþola konur. Þar af var rúmlega helmingur árásarþola undir 36 ára.

Á ofbeldisgátt 112.is má finna upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða vegna ofbeldis, þ.m.t. Sjúkt spjall Stígamóta. Sjúkt spjall er ætlað ungmennum yngri en 20 ára af öllum kynjum sem hafa áhyggjur af samböndum sínum, samskiptum eða ofbeldi.

Á ofbeldisgáttinni má einnig finna upplýsingar fyrir þau sem þurfa hjálp til að hætta að beita ofbeldi.

Ætíð er hægt að tilkynna heimilisofbeldi með því að hafa samband við 112.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra gunnarhg@logreglan.is

Heimilisofbeldi og manndráp fyrstu 3 mánuði ársins 2023