5 September 2014 12:00

Það má segja að ökumaður, sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni, hafi verið með flest, sem hægt var að hafa, í ólagi. Bifreiðin sem hann ók var án vélarhlífar. Þar með braut hann reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Þá vantaði skráningarnúmer á bifreiðina. Hún var að auki ótryggð. Þegar ökumaður var svo beðinn um ökuskírteini kvaðst hann ekki hafa það meðferðis.

Þá kærði lögregla þrettán ökumenn fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 132 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Einnig voru höfð afskipti af ökumönnum sem lagt höfðu bifreiðum sínum ólöglega.

Eftirlýstur í akstri með kannabis

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, framvísaði tveimur grömmum af kannabisefnum þegar lögreglumenn ræddu við hann. Viðkomandi var eftirlýstur í kerfum lögreglu vegna annars máls.

Þá vakti undarlegt aksturslag annars ökumanns athygli lögreglu. Sá virtist eiga í erfiðleikum með að halda bifreiðinni í gangi og þegar það loks tókst ók ökumaðurinn rakleiðis á og yfir kantstein. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð vegna gruns um ölvun við akstur.

Bifreið ekið á vegrið

Bifreið var ekið á vegrið við Reykjanesbraut á móts við Vogaafleggjara í morgun.  Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið.

Auk þessa urðu allmörg umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Ökumaður, sem steig á bensíngjöfina í stað þess að hemla ók upp á gangstétt í Keflavík og hafnaði bifreið hans á grindverki. Þá var ekið á kyrrstæða bifreið við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Tvær bifreiðar skullu saman þegar annarri var ekið í veg fyrir hina á gatnamótum Valhallarbrautar og Suðurbrautar. Þær voru fjarlægðar með dráttarbíl. Einnig rákust tveir bílar saman á Garðsvegi.  Loks slóst skófla á vinnuvél utan í rafmagnskassa og skemmdi hann, þegar stjórnandi vélarinnar vék fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.