10 September 2009 12:00

Vegna mikillar fjölgunar innbrota að undanförnu hvetur ríkislögreglustjóri almenning til að huga vandlega að öryggi heimila sinna og gera viðeigandi ráðstafanir til að torvelda innbrot. Í því samhengi minnir ríkislögreglustjóri á mikilvægi nágrannavörslu. Mikilvæg forvörn felst í samvinnu og samheldni fólksins í landinu.

Hið sama gildir um eigendur og stjórnendur fyrirtækja. Samvinnu og árvekni er einnig þörf á því sviði.

Sú óæskilega þróun sem orðið hefur hér á landi kemur ekki á óvart og er í samræmi við mat lögreglu.

Í matsskýrslu ríkislögreglustjórans um skipulagða glæpastarfsemi sem gerð var opinber í febrúarmánuði sl. segir m.a. um skipulögð innbrot og þjófnaði:

„Fyrir liggur að innlendir og erlendir hópar stunda skipulögð innbrot og þjófnaði hér á landi. Greiningardeild telur að slík starfsemi verði áfram áberandi og viðbrögð við henni ofarlega á verkefnalista lögreglu. Vitað er að erlendir afbrotamenn koma gagngert til Íslands í þeim tilgangi að skipuleggja og fremja þjófnaði. Þá eru fyrir hendi vísbendingar um að þessir aðilar kúgi fé út úr samlöndum sínum. Markaður fyrir stolnar vörur mun stækka í kjölfar efnahagshrunsins.“

Í sömu skýrslu frá árinu 2008 segir m.a. um þetta atriði:

„Allar upplýsingar og vísbendingar greiningardeildar ríkislögreglustjóra benda til þess að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt á Íslandi og gerist sífellt fjölbreytilegri. Þetta á ekki síst við um þá starfsemi,  sem erlendir glæpahópar er rætur eiga að rekja til Austur-Evrópu, halda uppi hér á landi. Fyrir liggur að austur-evrópskir ríkisborgarar eru „fluttir inn“ hingað til lands ýmist til skemmri dvalar eða lengri í þeim tilgangi einum að fremja afbrot. Vísbendingar eru um að þessi starfsemi sé mun umfangsmeiri en flestir höfðu ætlað. “    

Fagna ber þeim góða árangri sem lögregla hefur náð að undanförnu við að upplýsa skipulögð innbrot þjófaflokka. Ríkislögreglustjóri minnir hins vegar á mikilvægi þess að almenningur og stjórnendur fyrirtækja haldi vöku sinni gagnvart glæpastarfsemi af þessu tagi.