3 Júlí 2009 12:00

Nú fer í hönd ein af stærstu ferðahelgum sumarsins. Oft á tíðum hefur fjöldi ungmenna flykkst í útilegur í s.k. SMS partý og stundum verið tjaldað þar sem ekkert eftirlit er eða hreinlætisaðstaða. Af þessu tilefni vill lögreglan hvetja foreldra til að fylgast vel með því hvert börn þeirra eru að fara í útilegur enda þekkt að slíkar samkomur eru markaðstækifæri fyrir dreifingaraðila fíkniefna. Best væri náttúrulega ef foreldrar væru með börnunum í útilegunum. 

Lögreglan á Selfossi og Lögreglan á Hvolsvelli verða með sérstakan viðbúnað vegna þessa og að venju í góðu samstarfi við lögregluna í Reykjavík. Þannig verða ökutæki þessara liða við hraðaeftirlit allan sólarhringinn og mega ökumenn vænta þess að verða stöðvaðir og ástand og réttindi þeirra kannað. Landhelgisgæslan flýgur með lögreglu til eftirlits með umferð bæði á vegi og utan vegar og og að auki hefur Ríkislögreglustjóri mannað sérstaklega bifreiðar til aukins eftirlits. Þá verða tvær lögreglubifreiðar liðanna á Selfossi og í Hvolsvelli, sem búnar eru sérstökum öndunarsýnamælum til mælingar á áfengi í útöndunarlofti ökumanna, á ferð í uppsveitum Suðurlands eða eftir því sem umferðin dreifist.

Síðast en ekki síst ber að geta þess að auk alls þessa verður fíkniefnaleitarhundur fangelsisins að Litla-Hrauni með báðum þessum liðum við eftirlitið um helgina.