2 Maí 2007 12:00

Það er vor í lofti og fólki fjölgar á útivistarsvæðum borgarinnar og í námunda hennar. Golfvellirnir opna nú hver af öðrum eftir vetrarlokanir og þangað flykkjast nú áhugasamir golfarar með bros á vör. Gleðin er við völd. Golfarar sem aðrir útivistarmenn fara gjarnan á bílum sínum á völlinn og skilja þá eftir á bifreiðastæðum á meðan þeir njóta þess að stunda áhugamálið, golf eða gönguferðir.  Brögð eru að því að vammlaust fólk hafi skilið við bifreiðar sínar á bifreiðastæðum við golfvellina og útivistarsvæðin með lausamunum og verðmætum á glámbekk sem hefur orðið til þess að óprúttið fólk hefur freistast til þess að brjótast inn í viðkomandi bifreiðar og stela þessum hlutum.

Má ætla að í sumum tilvikum hafi hreinlega verið fylgst með fólki leggja bifreiðum sínum er það fer á golfvöllinn eða útivistarsvæðið og síðan látið til skarar skríða. Það er því höfuðatriði að skilja ekki við töskur, veski og aðra lausamuni í bifreiðum því það dregur verulega úr líkum á því að inn í þá verði brotist. Fólk situr ekki eingöngu uppi með að verðmætum er stolið heldur eru skemmdirnar á bifreiðunum jafnvel dýrari en það sem tekið er. Tökum höndum saman, lögregla og borgarar og afstýrum innbrotum í bifreiðar með því að vera á verði og freista ekki óprúttins fólks með því að skilja við verðmæti á glámbekk.

Pistillinn hér að ofan kemur frá aðalvarðstjóra og hverfislögreglumanni á svæðisstöðinni í Grafarvogi en efni hans á erindi til allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu.