8 Mars 2011 12:00

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdi í dag húsleitir í húsnæði Byko hf., Húsasmiðjunnar hf. og Úlfsins, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið.

Til rannsóknar eru ætluð brot á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta um m.a. verð, gerð tilboða og skiptingu markaða. Samkvæmt 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005 varðar það starfsmenn fyrirtækja sektum eða fangelsi allt að sex árum ef þeir framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma samráð milli keppinauta, m.a. um verð.

Rannsókn ríkislögreglustjóra beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallast á kæru Samkeppniseftirlitsins, en þau brot sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru stofnunarinnar.

Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði, en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum.

Framangreindar húsleitaraðgerðir voru framkvæmdar í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, en ákvæði 42. gr. samkeppnislaga heimila samvinnu og miðlun upplýsinga milli lögreglu og Samkeppniseftirlitsins.

Í húsleitunum var lagt hald á gögn og muni í þágu rannsóknarinnar. Samhliða húsleitaraðgerðum voru nítján starfsmenn fyrirtækjanna handteknir og færðir til yfirheyrslu. Þeim yfirheyrslum er nú lokið og hlutaðeigandi starfsmenn frjálsir ferða sinna.

Fyrir rannsóknaraðilum liggur nú að vinna úr gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið.

Við aðgerðina naut ríkislögreglustjóri og Samkeppniseftirlitið aðstoðar starfsmanna sérstaks saksóknara, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Ríkislögreglustjórinn / Samkeppniseftirlitið, 8. mars 2011