29 Október 2003 12:00

Fíkniefnastofa ríkislögreglustjórans hefur mælt árangur lögreglunnar í fíkniefnamálum á undanförnum árum. Hingað til hefur einkum verið litið til fjölda fíkniefnabrota og magns fíkniefna sem lagt er hald á, sem eru ágætar upplýsingar en segja ekki allt um aðgerðir og áherslur lögreglunnar í þessum málaflokki.  Nú hefur ríkislögreglustjórinn tekið saman upplýsingar úr gögnum lögreglunnar um fjölda haldlagninga, án tillits til magns haldlagðra fíkniefna hverju sinni, en það er sá mælikvarði sem segir okkur einna mest um almenna virkni lögreglu í fíkniefnamálum.

Á árinu 2000 var lagt hald á ríflega 22.000 stykki af e-töflum, árið 2001 tæplega 94.000, en árið 2002 ríflega 800 stykki og til 31. ágúst á þessu ári um 950 stykki.  Af þessu mætti álykta að lögreglan hafi dregið verulega úr eftirliti með innflutningi og dreifingu e- taflna.  Svo er ekki eins og sjá má á fjölda haldlagninga.  Árið 2000 var lagt hald á e-töflur í 66 tilvikum, í 68 tilvikum 2001, í 58 tilvikum 2002 og þann 31. ágúst sl. var búið að leggja hald á e-töflur í 74 tilvikum.  Þegar þessar tölur eru skoðaðar sést glöggt að lögreglan hefur hert aðgerðir í fíkniernamálum.  

Fíkniefnabrotum hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum.  Á mynd 1 er yfirlit um fjölda fíkniefnabrota skipt eftir mánuðum frá 1. janúar 2000 til 31. ágúst 2003. Mikil fjölgun brota hefur orðið á síðustu árum og ef aðeins er litið til fyrstu 8 mánaða 2002 og 2003 hefur fíkniefnabrotum fjölgað um 49,9%.

Í lok ágúst sl. hafði lögreglan lagt hald á fíkniefni í 1.139 skipti, sem er 31 skipti sjaldnar en á síðasta ári, sem þó var metár.  Á fyrstu átta mánuðum ársins var lagt hald á hass í 349 skipti, í 248 skipti tóbaksblandað hass, í 241 skipti amfetamín, í 113 skipti marihúana, í 74 skipti e-töflur, í 45 skipti kókaín og í 69 skipti önnur efni.

Magn haldlagðra fíkniefna það sem af er þessu ári er ekki mikið, borið saman við síðustu ár.  Skýringa er einna helst að leita í því að færri umfangsmikil innflutningsmál hafa komið til kasta lögreglu á árinu.  Mynd 3 sýnir haldlagt magn helstu efnistegunda fyrstu 8 mánuði ársins borið saman við heildarmagn síðustu þriggja ára.