30 Desember 2012 12:00
Töluvert tjón varð á nokkrum bóndabæjum og ökutækjum á Barðaströnd vegna hvassviðris sem geisaði í gær og í nótt. Að öðru leyti hafa ekki orðið nein óhöpp eða teljandi vandræði umfram rýmingar sem gripið var til á Patreksfirði. Rýming á reit 10 þar stendur enn.
Rýmingar á öðrum stöðum á Vestfjörðum eru enn í gildi, utan þess að aflétt var rýmingu á reit 4 á Flateyri í dag. Um var að ræða eitt hús og einn íbúa í því sambandi.
Þá var horfið frá því að opna veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur vegna hættu á frekari snjóflóðum úr hlíðunum fyrir ofan veginn. A.m.k. tvö stór snjóflóð hafa fallið á veginn um Súðavíkurhlíð sem erfiðlega hefur gengið að ryðja. Mokstur á þessari leið verður skoðaður á morgun.
Vegurinn milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar hefur verið opinn en umferð um Eyrarhlíð hefur verið undir eftirliti. Þar hafa björgunarsveitarmenn staðið vaktina fyrir lögreglu og almannavarnir. Í öryggisskyni verður veginum um Eyrarhlíð lokað kl.22:00 í kvöld. Gert er ráð fyrir því að vegurinn verði opnaður á ný upp úr kl.08:00 í fyrramálið.
Suðureyrarvegur, Flateyrarvegur og vegurinn milli Ísafjarðar og Þingeyrar eru allir lokaðir í öryggisskyni. En snjóflóð hafa fallið á alla þessa vegi undanfarna daga.
Almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps mun funda kl.10:00 í fyrramálið. Þá verða ákvarðanir teknar um afléttingu rýmingar og opnun vega m.t.t. ráðgjafar frá Veðurstofu Íslands.
Upplýsingar um færð á vegum og opnanir eru gefnar upp í síma Vegagerðarinnar, 1777, og á heimasíðu hennar, vegagerdin.is.