30 Desember 2012 12:00

Veður hefur gengið mikið niður í morgun á Vestfjörðum.  Rafmagn hefur verið skammtað í gær og í nótt af Orkubúi Vestfjarða.

Skutulsfjarðarbraut, milli Holtahverfis og Eyrarinnar, er opin en umferð um þennan vegarkafla er undir sérstöku eftirliti. Þeir vegakaflar sem lokaðir voru vegna snjóflóðahættu í gær og fyrradag hafa ekki verið opnaðir enn.

Þá gilda þær rýmingar sem ákveðnar voru hvað íbúðarhús, vinnustaði og bóndabæi varðar. 

Björgunarsveitir og sjúkralið hafa verið að störfum undanfarna sólarhringa.  Störf þeirra hafa aðallega snúist um að aka fólki til og frá vinnu, aðstoða lögreglu við lokanir vega og nú þessa stundina eru björgunarsveitir að aðstoða sjúkraflutningamenn við að nálgast sjúkling sem fluttur er sjóleiðina frá Flateyri að Holtsbryggju.  Sjúklingurinn verður fluttur með sjúkrabifreið frá Holti í Önundarfirði til Ísafjarðar.

Ýmislegt óhagræði hefur orðið vegna veðursins sem geisað hefur en engin slysi eða óhöpp hafa orðið.

Upplýsingar um færð á vegum og opnanir eru gefnar upp í síma Vegagerðarinnar, 1777, og á heimasíðu hennar, vegagerdin.is.

Frekari upplýsingar verða gefnar út eftir hádegið í dag þegar aðstæður hafa verið metnar af sérfræðingum Veðurstofunnar og ákvarðanir teknar af lögreglu og almannavörnum.