25 September 2003 12:00

Embætti Ríkislögreglustjórans hafa borist upplýsingar um að einstaklingar séu beittir blekkingum í þeim tilgangi að fá þá til að gefa upp persónuupplýsingum þar á meðal um kreditkortanúmer og pinnnúmer kreditkorta þeirra. Blekkingar þessar eru gerðar með þeim hætti að einstaklingar, sem líklega hafa allir átt viðskipti við eBay uppboðsvefinn, hafa fengið tölvupóst sem virðist eiga uppruna sinn hjá eBay uppboðsvefnum. Í tölvupóstinum er bent á að villa sé í skrám vefsins og þurfi viðtakandi tölvupóstsins því að gefa upp persónuupplýsingar, meðal annars kreditkortaupplýsingar. Mjög nákvæmlega hefur verið staðið að þessum blekkingum og hefur meðal annars verið settur upp á netinu vefur sem svipar til vefsvæðis eBay. Erfitt er fyrir hinn almenna notanda að átta sig á að sá aðili sem sendir póstinn og tekur við honum aftur er ekki tengdur framangreindum uppboðsvef. Grunur leikur á að hinir óprúttnu aðilar hafi með einhverjum hætti komist yfir netföng fólks sem átt hefur viðskipti við eBay.

Hér er hins vegar um blekkingar að ræða og er fólk varað við að veita þær upplýsingar sem þar er beðið um. Þeim sem þegar hafa gefið upp umræddar upplýsingar er ráðlagt að hafa þegar samband við viðkomandi kreditkortafyrirtæki og tilkynna þar um upplýsingagjöfina.

Rétt er að taka fram að Ríkislögreglustjórinn hefur ekki neinar upplýsingar um að fólk hafi látið blekkjast af póstsendingum þessum, eða að tjón hafi orðið af þeirra völdum.