7 Desember 2007 12:00

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Þórólfur Guðnason, settur sóttvarnarlæknir.

Í dag héldu ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir fund með öllum lögreglustjórum og sóttvarnalæknum umdæma landsins, fulltrúum Landspítala, heilbrigðis- og tryggingaráðuðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Yfir 60 manns sóttu fundinn. Tilefnið var að undirbúa aðila fyrir viðamikla æfingu sem haldin verður mánudaginn 10. desember. Æfingin ber vinnuheitið Samábyrgð.

Þá verða æfð viðbrögð við heimsfaraldri inflúensu samkvæmt drögum að landsáætlun sem embætti sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra hafa unnið að ásamt fjölda aðila um allt land.

Heimsfaraldur inflúensu getur lamað samfélagið á skömmum tíma og mun reyna á flesta þætti samfélagsins ef skæð inflúensa sem herjar á heimsbyggðina nær til landsins.

Að þessu sinni verður þáttur lögreglustjóra og sóttvarnalækna samæfður þar sem þeirra starf í slíkum faraldri er mjög umfangsmikið. Munu þeir fá mörg mismunandi verkefni til úrlausnar í æfingunni sem þeir þurfa að leysa af hendi í sínu umdæmi. Mikil áhersla er lögð á samvinnu lögreglustjóranna og sóttvarnalækna umdæma og svæða í áætluninni.

Starfsmenn almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans og sóttvarnalæknis höfðu framsögu á fundinum þar sem farið var yfir áhættumat vegna faraldurs, gerð viðbragðsáætlunarinnar og tilhögun æfingarinnar.

Ríkislögreglustjórinn, 7. desember 2007

Frá fundinum