30 Apríl 2013 12:00

Samæfing íslenskra viðbragðsaðila með björgunarsveit breska flughersins (Royal Air Force Mountain Rescue) fór fram á Langjökli og við Akrafjall um liðna helgi. Meginmarkmið æfingarinnar var að þjálfa bresku sveitina í fjallabjörgun og undirbúa íslenska viðbragðsaðila fyrir flugslys hervéla á Íslandi.

Áhersla var lögð á fjalla og jöklabjörgun og átti æfingin því að fara fram á Langjökli en vegna veðurs þurfti að færa æfinguna niður af hálendinu á sunnudeginum. Vettvangsstjórn var skipuð fulltrúum íslensku viðbragðsaðilanna og einnig var Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð hluta af tímanum. Eftirtaldir aðilar tóku þátt í æfingunni: Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, sérsveit ríkislögreglustjóra, lögreglan í Borgarnesi, sprengjudeild Landhelgisgæslunnar (LHG), flugdeild LHG og stjórnstöð LHG og björgunarsveitir á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjörg. Björgunarfélag Akraness sá um að undirbúa vettvangsæfingar. Æfingarstjórn var í höndum fulltrúa frá RAF Mountain Rescue, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Landhelgisgæslunni.

Handrit æfingarinnar fjallaði um aðstæður þar sem flugstjórn tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/JRCC Íslandi að C-130 Hercules-flugvél frá breska hernum væri saknað. Bregst stjórnstöðin þá við í samræmi við verkferla, virkjar / upplýsir viðbragðsaðila og reiknar út hugsanlegt leitarsvæði.

Viðbragðsaðilar brugðust við samkvæmt boðun frá Neyðarlínunni 112 og hófu leit á leitarsvæðið ásamt fulltrúum breskra yfirvalda og var leitaraðgerðum á vettvangi stýrt frá stjórnstöðvarbíl Landsbjargar. Seinni daginn fór fram vettvangsæfing þar sem sprengjusérfræðingar LHG þurftu að tryggja viðkvæman farm flugvélarinnar og lögregla tryggði lokanir, gæslu og verndun rannsóknarhagsmuna. Að því loknu fóru fram tæknilegar björgunaræfingar í hlíðum Akrafjalls.