6 Júní 2008 12:00

Í gærkvöld hélt áhöfn TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, æfingu fyrir viðbragðsaðila í Rangárvallasýslu varðandi umgengni og móttöku á þyrlum. Námskeiðið var haldið í húsi björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli.

Á fyrirlesturinn og æfinguna mættu aðilar frá Björgunarsveitinni Dagrenningu, Flugbjörgunarsveitinni á Hellu, læknar og sjúkraflutningsmenn frá Hvolsvelli, slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu og lögreglan á Hvolsvelli.

Góð þátttaka var á æfingunni og voru þátttakendur mjög ánægðir eftir hana. Æfð var móttaka á þyrlunni og einnig farið yfir búnað hennar. Nokkrir þátttakendur voru svo hífðir upp í þyrluna þar sem hún sveimaði yfir hópnum.

Viðbragðsaðilar í Rangárvallasýslu hafa haft mikið og gott samstarf við Landhelgisgæsluna í áraraðir, enda hefur flugdeildin sinnt fjölmörgum björgunum, leitum og sjúkraflutningum í umdæminu í gegnum árin.

Ennfremur hefur lögreglan á Hvolsvelli haft langt og öflugt samstarf um hálendiseftirlit við Landhelgisgæsluna og mun því góða samstarfi verða framhaldið í ár með skipulögðum hálendis- og umferðareftirlitsferðum.

Meðfylgjandi eru nokkrar ljósmyndir sem teknar voru á fyrirlestrinum og verklegu æfingunni í gærkvöld.