2 Nóvember 2007 12:00

Lögreglunni í Grafarvogi bárust upplýsingar um óvenju mikla fjölgun reiðhjóla í hjólageymslu fjölbýlishúss í hverfinu á skömmum tíma. Fór lögreglan á staðinn og var ekki um að villast, geymslan var nánast full af reiðhjólum af ýmsum stærðum og gerðum. Voru ungir athafnamenn önnum kafnir við að sýsla við hjólin, breyta og bæta. Aðspurðir kváðust þeir hafa fundið þau víðsvegar um hverfið og tekið þau til handargagns. Var þeim gert grein fyrir því að óskilamunun ætti að koma til lögreglu sem síðan reyndi að finna eigendur þeirra og virtust þeir koma af fjöllum. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem lögreglan þarf að sinna erindum sem þessum. Vill lögreglan árétta það við fólk, ekki síst foreldra, að fólki er ekki heimilt að slá eign sinni á hluti, hjól sem önnur verðmæti, sem það finnur á víðavangi. Það er alltof algengt að reiðhjólum sé stolið og þau síðan skilin efir þar sem fólk kann að finna þau og jafnvel slær eign sinni á þau. Við sem tökum við tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði, frá t.d. börnum sem hafa jafnvel safnað sér fyrir þeim og lagt mikið á sig til að eignast þau, sjáum svekkelsið og vanlíðanina sem þessir þjófnaðir valda þeim sem fyrir þeim verða. Hvetjum við fólk til að hafa samband við lögreglu ef eitthvað vekur grunsemdir þess. Þannig upplýsast oft hin ýmsu mál.

Kveðja,                                                                                                                                           Einar Ásbjörnsson aðalvarðstjóri                                                                                                      Ásdís Haraldsdóttir hverfislögreglumaður