25 Janúar 2007 12:00
Tilkynningar hafa borist lögreglunni á Vestfjörðum, aðallega frá unglingsstúlkum á Ísafirði, þess efnis að ókunnur aðili eða aðilar biðji um leyfi til að eiga samtal við þær á MSN tölvusamskiptaforritinu. Aðili/aðilar þessir virðast segja rangt til nafns og eru einhver dæmi um að hann eða þeir beri sig í vefmyndavél, sem birtist þá óvænt á tölvuskjá viðkomandi stúlkna.
Lögreglan er nú að rannsaka hver þessi aðili eða aðilar eru og standa góðar vonir til þess að það upplýsist. Lögreglan vill hvetja foreldra ungmenna til þess að umgangast internetið af mikilli varúð og tala aldrei við þá sem þau ekki þekkja, hvað þá heldur að gefa slíkum aðilum upplýsingar um sig. Nánar um slíkar öryggisráðstafanir má t.d. vísa á vef landssamtakanna Heimili og skóli á vefslóðinni heimiliogskoli.is. Þar er að finna góð ráð í þessu sambandi undir heitinu SAFT.
Athæfi sem þetta, að bera sig fyrir framan börn, getur verið refsivert, þ.e.a.s. gæti varðað kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.