9 Janúar 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út skýrsluna Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2007 – Dreifing tilkynntra brota eftir svæðum og reynsla íbúa af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í þessari skýrslu er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004 til 2007 og einnig um niðurstöður könnunar á viðhorfi íbúa höfuðborgarinnar til lögreglu, reynslu af afbrotum og öryggistilfinningu þeirra. Þetta er í annað sinn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur út tölfræðiskýrslu í þessari mynd, en markmiðið með henni er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot á höfuðborgarsvæðinu, mæla þróun í afbrotatíðni milli ára, gera samanburð eftir svæðum og tengja umfjöllunina við lýðfræðilegar upplýsingar og niðurstöður könnunar um upplifun íbúa af afbrotum.
Þegar tekin eru saman þau afbrot sem eru til umfjöllunar í þessari skýrslu kemur fram að árið 2007 fækkar afbrotum um rúmlega 5% ef litið er til meðalfjölda brota á árunum 2004-2006. Mun fleiri brot eiga sér stað í miðborg Reykjavíkur en á öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins. Mest varð fjölgun brota í Hlíðum árið 2007 þegar litið er til meðalfjölda brota árin 2004-2006, en mest fækkun á brotum var í Breiðholti.
Niðurstöður spurningakönnunarinnar sýna meðal annars að þegar íbúar höfuðborgarsvæðisins eru spurðir út í það hvaða afbrot þeir teldu mesta vandamálið í sínu hverfi nefndu 32% innbrot, 30% nefndu umferðarlagabrot og 17% eignaspjöll.
Íbúum höfuðborgarsvæðisins virðist almennt finnast lögregla skila góðu starfi í sínu hverfi við að stemma stigu við afbrotum. Þátttakendur búsettir í Hafnarfirði og Breiðholti voru einna ánægðastir með störf lögreglunnar í sínu hverfi en þátttakendur búsettir í Mosfellsbæ, Kjalarnesi, Garðabæ og Álftanesi voru hinsvegar ekki eins ánægðir og aðrir með störf lögreglu á sínu svæði.
Mikill meirihluti íbúa, eða tæplega 90 prósent, sagðist mjög eða frekar öruggur einn á gangi að næturlagi í sínu hverfi. Meira en helmingur þátttakenda sagðist hinsvegar mjög eða frekar óöruggur einn á gangi í miðborg Reykjavíkur. Karlar töldu sig vera mun öruggari en konur við fyrrgreindar aðstæður og yngri aldurshóparnir töldu sig vera öruggari en þeir sem eldri eru.
Smellið hér til að lesa skýrsluna.