19 Nóvember 2009 12:00

Fram kemur að hegningarlagabrotum fjölgaði um 14 prósent árið 2008 sé litið til meðaltals áranna 2005-2007. Fjölgun brota árið 2008 markast mjög af fjölgun þjófnaðarbrota og þá ekki síst innbrota. Hins vegar fækkaði ofbeldisbrotum og eignaspjöllum.

Árið 2008 áttu mun fleiri brot sér stað í Miðborg Reykjavíkur en á öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins, eða hátt í 2000 hegningarlagabrot. Þó eiga flest þessara brota sér stað á afmörkuðu svæði innan hverfisins og á afmörkuðum tíma, þegar skemmtanalíf borgarbúa fer þar fram að næturlagi um helgar.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar sýna meðal annars að 91 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins telja lögreglu skila góðu starfi í sínu hverfi við að stemma stigu við afbrotum og jókst ánægjan frá síðustu könnun. Þá töldu tæplega 74 prósent lögregluna aðgengilega í sínu hverfi.

Þegar spurt var hvaða afbrot fólk áleit vera mesta vandamálið í sínu hverfi nefndu flestir innbrot eða mun fleiri en í síðustu könnun. Færri nefndu hins vegar umferðarlagabrot sem mesta vandamálið árið 2008 samanborið við fyrri ár.

Mikill meirihluti íbúa, eða tæplega 90 prósent, sagðist mjög eða frekar öruggur einn á gangi að næturlagi í sínu hverfi. Um 63 prósent þátttakenda sagðist hins vegar mjög eða frekar óöruggur einn á gangi í miðborg Reykjavíkur.

Skýrsluna má nálgast hér og prentvæna útgáfu er að finna hér.