6 Desember 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út skýrsluna Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2009 – Dreifing tilkynntra brota eftir svæðum og reynsla íbúa af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í þessari skýrslu er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2006 til 2009 og einnig um niðurstöður könnunar á viðhorfi íbúa höfuðborgarinnar til lögreglu, reynslu af afbrotum og öryggistilfinningu þeirra. Þetta er í fjórða sinn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur út tölfræðiskýrslu í þessari mynd, en markmiðið með henni er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot á höfuðborgarsvæðinu, mæla þróun í afbrotatíðni milli ára, gera samanburð eftir svæðum og tengja umfjöllunina við lýðfræðilegar upplýsingar og niðurstöður könnunar um upplifun íbúa af afbrotum.

Árið 2009 var um margt viðburðarríkt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar litið er til þróunar afbrota. Hegningarlagabrot voru 11.679 talsins og fjölgaði um 11 prósent á milli ára. Helgast það einkum af áframhaldandi fjölgun auðgunarbrota fyrri hluta árs 2009. Skráðum innbrotum fjölgaði um 45 prósent á milli ára og voru 2.883 sem jafngildir því að framin hafi verið átta innbrot á dag á höfuðborgarsvæðinu árið 2009. Einungis á Seltjarnarnesi og Álftanesi fækkaði innbrotum frá árinu á undan, en annars fjölgaði innbrotum á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mest varð fjölgunin í Grafarholti og Norðlingaholti eða sem nemur næstum þreföldun milli ára.

Þegar litið er til annarra brota sem fjallað er um skýrslunni þá er niðurstaðan á annan veg enda fækkar flestum öðrum brotum eða fjöldi þeirra stendur í stað. Eingöngu nytjastuldum fjölgaði á milli ára en fjöldi eignaspjalla og kynferðisbrota stóð nánast í stað á meðan fíkniefnabrotum og ofbeldisbrotum fækkaði á milli ára.

Þó svo fíkniefnabrotum fækki milli ára þá var mikið magn fíkniefna haldlagt á síðasta ári enda áhersla lögreglu meiri á að stöðva innflutning og framleiðslu fíkniefna en að stemma stigu við neyslu þeirra. Mest aukning varð í haldlagningum á marihúana, en árið 2009 voru rúmlega 54 kíló haldlögð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslu samanborið við tæplega fimm kíló árið áður. Þetta kemur einkum til vegna þess að í nokkrum málum fann lögregla stórar framleiðslueiningar marihúanaræktunar. Einnig lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan hald á nokkru meira magn af amfetamíni árið 2009 en árið áður.

Þegar litið er til þeirra sem kærðir eru fyrir afbrot vekur athygli að hlutur kvenna virðist aukast jafnt og þétt á milli ára en þær voru 25 prósent kærðra vegna hegningarlagabrota árið 2009. Hlutur ungmenna í kærðum brotum er jafnan mikill. Einstaklingar á aldrinum 15 til 30 ára áttu rúmlega tvö af hverjum þremur allra þeirra hegningarlagabrota þar sem gerandi var þekktur, en þessi hópur er tæplega fjórðungur íbúa svæðisins.

Nokkur fylgni er milli fjölda brota og efnahagslegrar og félagslegrar stöðu eftir svæðum. Þannig er fjöldi innbrota almennt hærri á hverja 10.000 íbúa á þeim svæðum þar sem tekjur eru undir meðaltali á höfuðborgarsvæðinu og hlutfall þeirra sem fengu fjárhagslega aðstoð er sömuleiðis hærra en að meðaltali. Sama má segja um brot eins og nytjastuldi, eignaspjöll, ofbeldisbrot, kynferðisbrot og fíkniefnabrot.

Þegar þessi brot eru borin saman milli svæða að teknu tilliti til íbúafjölda, stendur Miðborg upp úr hvað fjölda þeirra varðar. Taka þarf mið af því að mikinn hluta þessara brota má rekja til skemmtanalífs á afmörkuðu svæði í hjarta borgarinnar um helgar. Þetta er sérstaklega áberandi þegar ofbeldisbrot eru skoðuð en 40 prósent þessara brota eiga sér stað í Miðborg. Friðsælast er hinsvegar á Álftanesi og Seltjarnarnesi, en á þessum svæðum eru brot jafnan fátíðust.

Árlega er lögð fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins spurningakönnun á reynslu þeirra af lögreglu, öryggi og afbrotum. Niðurstöður könnunarinnar birtast í skýrslunni. Viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins til lögreglu er almennt gott, en á öllum svæðum er mikil ánægja með störf hennar. Þá þykir íbúum lögreglan almennt aðgengileg þó það sé nokkuð misjafnt milli svæða. Um 60 prósent svarenda nefndu innbrot sem mesta vandamálið í sínu hverfi. Áfram fjölgar þeim sem sögðust einhvern tímann hafa óttast afbrot á árinu. Óttinn var í meira en helmingi tilvika við innbrot. Á sama tíma telur yfirgnæfandi meirihluti sig örugga þegar þeir eru einir á ferli í sínu hverfi að næturlagi.

Skýrsluna má nálgast hér.