20 Mars 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út skýrsluna Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2010 – Dreifing tilkynntra brota eftir svæðum. Í þessari skýrslu er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2007 til 2010. Þetta er í fimmta sinn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur út tölfræðiskýrslu í þessari mynd, en markmiðið með henni er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot á höfuðborgarsvæðinu, mæla þróun í afbrotatíðni milli ára, gera samanburð eftir svæðum og tengja umfjöllunina við lýðfræðilegar upplýsingar.
Árið 2010 var um margt viðburðarríkt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar litið er til þróunar afbrota. Hegningarlagabrot voru 10.929 talsins og fækkaði um 750 brot á milli ára. Að sama skapi fækkaði auðgunarbrotum á milli ára, en sé litið til meðaltals síðustu þriggja ára á undan má sjá fjölgun. Skráðum innbrotum fækkaði um 25 prósent á milli ára og voru 2.174 sem jafngildir því að framin hafi verið sex innbrot á dag á höfuðborgarsvæðinu árið 2010. Fækkun innbrota átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þegar litið er til meðalfjölda innbrota á árunum 2007-2009 þá nemur fækkunin sex prósentum.
Þegar litið er til annarra brota sem fjallað er um skýrslunni þá er niðurstaðan á annan veg enda fjölgar flestum öðrum brotum eða fjöldi þeirra stendur í stað. Eingöngu nytjastuldum fækkaði á milli ára en fjöldi eignaspjalla stóð nánast í stað á meðan fíkniefnabrotum, kynferðisbrotum og ofbeldisbrotum fjölgaði á milli ára.
Þó svo fíkniefnabrotum fjölgi milli ára þá var minna magn fíkniefna haldlagt á síðasta ári. Árið 2010 voru rúmlega 23 kíló af maríhúana haldlögð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslu samanborið við rúmlega 54 kíló árið áður. Einnig lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan hald á mun minna magn af amfetamíni árið 2010 en árið áður.
Þegar litið er til þeirra sem kærðir eru fyrir afbrot kemur fram að þrír af hverjum fjórum eru karlar. Hlutur ungmenna í kærðum brotum er jafnan mikill. Einstaklingar á aldrinum 15 til 30 ára áttu tvö af hverjum þremur allra þeirra hegningarlagabrota þar sem gerandi var þekktur.
Þegar þessi brot eru borin saman milli svæða að teknu tilliti til íbúafjölda, stendur Miðborg upp úr hvað fjölda þeirra varðar. Taka þarf mið af því að mikinn hluta þessara brota má rekja til skemmtanalífs á afmörkuðu svæði í hjarta borgarinnar um helgar. Þetta er sérstaklega áberandi þegar ofbeldisbrot eru skoðuð.
Skýrsluna má nálgast hér.