28 Desember 2012 12:00

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið saman bráðabirgðatölur um fjölda helstu brota árið 2012. Hafa ber þann fyrirvara á þessum upplýsingum að tölur fyrir árið 2012 eiga enn eftir að breytast. Þessar upplýsingar gefa þó innsýn í það hvert stefnir.

Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu fækkaði hegningarlagabrotum um 12 prósent samanborið við 2011. Innbrotum fækkaði um þriðjung árið 2012 frá árinu á undan. Miðað við þessar tölur voru framin á bilinu tvö til þrjú innbrot á dag á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 samanborið við fjögur á dag árið áður. Að meðaltali var framið eitt innbrot á dag í heimili á árinu 2012. Kynferðisbrotum fækkaði um 29 prósent á milli ára á höfuðborgarsvæðinu. Ofbeldisbrotum fjölgaði um 4 prósent, en að meðaltali var tilkynnt um 13 líkamsárásir í hverri viku á árinu sem er að líða. Tæplega þriðjungur allra líkamsárása á sér stað í miðborg Reykjavíkur í kringum skemmtanahald eftir miðnætti um helgar. Minniháttar skemmdarverkum fækkaði nokkuð frá árinu á undan.

Umferðarlagabrotum fjölgaði á milli ára, einkum hraðakstursbrotum. Einnig fjölgaði brotum vegna ölvunar við akstur og brotum þar sem ekið var undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fíkniefnabrotum fjölgaði um níu prósent á milli ára. Lögreglan og tollgæslan á höfuðborgarsvæðinu lögðu hald á minna magn fíkniefna árið 2012 en árið á undan. Mest var minnkun á magni amfetamíns, en sjö kíló af amfetamíni voru haldlögð árið 2012 samanborið við 31 kíló í fyrra.

Nánari upplýsingar má finna í meðfylgjandi skýrslu með því að smella hér.