11 September 2014 12:00

Út er komin skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2013. Þar er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu en þetta er í áttunda sinn sem embættið gefur út tölfræðiskýrslu í þessari mynd. Markmiðið með skýrslunni er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu, mæla þróun í afbrotatíðni milli ára og gera samanburð eftir svæðum. Þegar á heildina er litið þá hefur afbrotum fækkað á svæðinu, þó þróunin sé breytileg milli brotaflokka.

Í skýrslunni kemur fram að hegningarlagabrotum fækkar um þrjú prósent á milli ára en á sama tíma fjölgar sérrefsilagabrotum um rúmlega tvö prósent. Fjölgun sérrefsilagabrota er að mestu leyti komin til vegna fjölgunar fíkniefnabrota árið 2013. Af hegningarlagabrotum fjölgar kynferðisbrotum hlutfallslega mest, einkum vegna þess að vændismál voru rúmlega fjórum sinnum fleiri árið 2013 en árið á undan.

Ekkert manndráp átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu árið 2013 en skráðar voru fjórar tilraunir til manndráps. Lögreglu barst 781 tilkynning um ofbeldisbrot árið 2013 og fjölgar þeim um þrjú prósent á milli ára. Auðgunarbrotum fækkar um 5 prósent á milli ára og skýrir fækkun innbrota það að mestu. Árið 2013 var að jafnaði tilkynnt um 71 innbrot á mánuði, eða um tvö innbrot á dag. Til samanburðar voru að meðaltali framin sex innbrot á dag árið 2010. Af þessum innbrotum voru um 38 prósent á heimili. Innbrot á heimili voru því að jafnaði eitt á dag árið 2013.

Fíkniefnabrot voru 1.514 árið 2013 og hefur þeim verið að fjölga síðustu ár. Einkum vegna fjölgunar brota er varða vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna og sölu þeirra og dreifingu. Töluvert meira magn fíkniefna var haldlagt árið 2013 en 2012, en oft eru miklar sveiflur í magni á milli ára. Mest magn var tekið af marijúana, tæplega 31 kíló, og amfetamíni, um 28 kíló.

Árið 2013 voru 17.539 einstaklingar kærðir fyrir brot. Þar af voru 72 prósent karlar og 28 prósent konur. Flestir voru kærðir fyrir umferðarlagabrot eða um 76 prósent. Líkt og fyrri ár voru flestir kærðir fyrir of hraðan akstur eða 10.283 ökumenn. Árið 2013 voru 590 konur og 1.991 karl kærð fyrir hegningarlagabrot. Flestir kærðra karla í hegningarlagabrotum voru á aldrinum 21 til 30 ára, en flestar konur voru hins vegar á aldrinum 15 til 20 ára.

Smellið hér til að lesa skýrsluna.