22 Nóvember 2007 12:00

Afbrot á höfuðborgarsvæðinu – Dreifing tilkynntra brota eftir svæðum og reynsla íbúa af lögreglu, öryggi og afbrotum nefnist ný skýrsla sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út. Í henni er byggt á upplýsingum um fjölda tilkynntra brota til lögreglu á árunum 2005 og 2006 og viðhorfskönnun sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun og í samstarfi við Rannsóknarstofu í afbrotafræðum í maí 2007. Rannsóknin náði til 2.400 manna tilviljanaúrtaks einstaklinga á aldrinum 18 til 75 ára sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var 61% sem er í lægri kantinum en telst þó ásættanlegt.

Þegar gögn lögreglu eru skoðuð kemur fram að árið 2006 voru 9.666 hegningarlagabrot tilkynnt til lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu sem er tæplega 25% aukning frá árinu 2005. Hlutfallslega flest þessara brota áttu sér stað í Miðborginni eða yfir 18% hegningarlagabrota árið 2006.

Niðurstöður úr rannsókninni sýna að þegar íbúar höfuðborgarsvæðisins eru spurðir út í það hvaða afbrot þeir telja mesta vandamálið í þeirra hverfi kemur í ljós að flestir, eða tæplega 33%, hafa mestar áhyggjur af innbrotum og um 25% íbúa höfðu mestar áhyggjur af umferðalagabrotum. Nokkur munur er á viðhorfum eftir svæðum. Þannig höfðu íbúar Mosfellsbæjar og Kjalarness mestar áhyggjur af innbrotum eða tæplega 58% íbúa en íbúar í Hlíðunum höfðu hins vegar mestar áhyggjur af umferðarlagabrotum.

Almennt virðast íbúar höfuðborgarsvæðisins vera ánægðir með störf lögreglunnar, um 90% íbúa töldu lögregluna skila frekar góðu eða mjög góðu starfi, tæplega 11% töldu hana hins vegar skila frekar slæmu eða mjög slæmu starfi. Tæplega 56% íbúa höfuðborgarsvæðisins töldu að lögreglan ætti að sjást meira eða mun meira. Rúmlega 43% töldu hana hæfilega sýnilega. Undir 1% töldu að lögreglan ætti að sjást minna eða mun minna.

Yfir 90% íbúa töldu sig vera örugga á gangi í sínu eigin hverfi eftir að myrkur er skollið á. Um 98% íbúa í Grafarvogi töldu sig frekar eða mjög örugga við þessar aðstæður og sama sögðu 85% íbúa Miðborgarinnar. Þó svo þátttakendur væru almennt öruggir einir á gangi í sínu hverfi þá sögðust tæplega 55% íbúa höfuðborgarsvæðisins sig vera mjög eða frekar óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á. Nokkur munur var á öryggistilfinningu karla og kvenna, yfir 62% karla töldu sig vera örugga á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á en 30% kvenna sögðu hið sama.

Smellið  hér til að lesa skýrsluna.

Höfundar skýrslunnar eru Benjamín Gíslason og Rannveig Þórisdóttir.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri fór nokkrum orðum um skýrsluna þegar hún var kynnt.