16 Nóvember 2007 12:00

Ekki verður annað sagt en ástandið á Álftanesi sé gott þegar tölfræði um afbrot er skoðuð. Í sveitarfélaginu eru afbrot afar fátíð miðað við önnur svæði í umdæminu. Þetta kom fram á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með lykilfólki frá bæjarfélaginu en fundurinn var haldinn í Álftanesskóla sl. miðvikudag en hann sóttu sextán manns. Þess má jafnframt geta að áformað er að halda íbúafund á næsta ári þar sem löggæslumál verða sömuleiðis í brennidepli. Um það verður fjallað nánar á lögregluvefnum þegar nær dregur.

Á fundinum fóru fulltrúar lögreglunnar yfir stöðu og þróun mála á Álftanesi og báru saman tölfræði áranna 2005 og 2006 en afbrot eru hlutfallslega mjög fá, eins og áður sagði. Fjallað var sérstaklega um starfsemi umferðardeildar en á Álftanesi, líkt og annars staðar, hafa menn nokkrar áhyggjur af hraðakstri.  Var einkum rætt um Álftanesveg í því sambandi. Hjá fundarmönnum kom líka fram að frekari uppbygging er fram undan í sveitarfélaginu en framkvæmdir kunna að raska samgöngum að einhverju leiti. Var leitað eftir leiðbeiningum um hvernig best væri að haga slíkum málum og tók lögreglan auðvitað vel í það. Fundarmenn virtust almennt nokkuð ánægðir með sýnileika lögreglu á Álftanesi en aukinn sýnileiki er einmitt eitt af markmiðum embættisins í þeim tilgangi að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Örn Guðmundsson aðalvarðstjóri og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn.

Bjarni S. Einarsson bæjartæknifræðingur og Sveinbjörn Markús Njálsson skólastjóri.

Sigurður Magnússon bæjarstjóri og Stefán Arinbjarnarson íþrótta- og tómstundafulltrúi.