22 Október 2003 12:00

Ríkislögreglustjórinn hefur gefið út skýrslu um afbrotatölfræði fyrir árið 2002. Þar kemur fram fjöldi skráðra afbrota hjá lögreglu á árinu 2002. Í skýrslunni eru brot flokkuð eftir lögregluumdæmum þar sem m.a. er gerður samanburður á þróun brota milli ára, bæði í tölulegum fjölda og í hlutfalli miðað við 10.000 íbúa. Í sumum brotaflokkum hefur orðið aukning en fækkun í öðrum.

Árið 2002 voru skráð 99.070 brot í málaskrá lögreglunnar sem er rúmlega 9% aukning frá árinu á undan. Mest aukning er í umferðarlagabrotum, eða um 10,5%. Nokkrar sveiflur eru í einstökum brotaflokkum sem gerir erfiðara að meta þróunina til styttri tíma litið. Sé miðað við þróunina í hlutfalli við íbúafjölda kemur í ljós að á árunu 2002 eru eftirtaldir brotaflokkar undir meðaltali síðustu fjögurra ára; brot gegn valdstjórninni, ofbeldisbrot, eignaspjöll og brot gegn áfengislögum. Fjöldi skjalafalsbrota, kynferðisbrota, brota gegn friðhelgi einkalífs, auðgunarbrota, nytjastuldarbrota, fíkniefnabrota og umferðarlagabrota er hins vegar yfir meðaltali. Um fíkniefnabrotin og umferðarlagabrotin er það að segja að langmestu leyti er þar um að ræða frumkvæðisverkefni lögreglu og að hluta til tollgæslu varðandi fíkniefnamálin og nýjungar í tæknibúnaði lögreglu. Þannig hefur umferðarlagabrotum t.d. fjölgað um rúmlega 17% á síðustu fjórum árum, þar af hraðakstursbrotum um 47% sem að miklu leyti má rekja til aukinnar myndavélanotkunar lögreglu.

Kynnið ykkur tölfræðiskýrsluna og samantekt á helstu niðurstöðum hér >>