12 Desember 2007 12:00

Afbrotatölfræði 2006

Skýrsla ríkislögreglustjóra um afbrotatölfræði 2006 er komin út. Í aðfaraorðum ríkislögreglustjóra segir:

„Eitt verkefna ríkislögreglustjóra er að taka saman og halda utan um afbrotatölfræði. Mikilvægt er að þessar upplýsingar séu aðgengilegar öllum lögregluembættum og almenningi.

Á þessu ári tóku nokkur lögregluembætti þátt í tilraunaverkefni er varðar verkefnamiðaða löggæslu. Tilgangurinn er að lögregluembættin vinni í meira mæli að því að koma í veg fyrir afbrot. Í því sambandi hefur ríkislögreglustjóri beitt sér fyrir því að lögreglan eigi greiðan aðgang að tölfræðiupplýsingum á innri vef sínum. Þá hefur verið tekin upp sú nýbreytni að birta upplýsingar um afbrot í hverjum mánuði á heimasíðu ríkislögreglustjóra. Með því móti hafa fjölmiðlar og almenningur aðgang að nýjustu upplýsingum um tíðni afbrota. Á sínum tíma setti ríkislögreglustjóri fram markmið fyrir lögregluna um fækkun ákveðinna brota. Vel hefur til tekist í þeim efnum. Á síðustu árum hefur áhugi á tölfræðiupplýsingum aukist. Það skiptir máli að þessar upplýsingar séu notaðar samhliða öðrum aðferðum til að stemma stigu við afbrotum.“

Helstu niðurstöður skýrslunnar

Skráðum hegningarlagabrotum fjölgar aðeins á milli áranna 2005 og 2006 en eru þó umtalsvert færri en þau voru á árabilinu 2001-2004. Það sama á við um umferðarlagabrot þ.e. þau eru fleiri en árið 2005 en færri en á árunum 2001-2004. Hraðakstursbrot hafa hins vegar aldrei verið fleiri og fjöldi ölvunarakstursbrota var meiri en síðastliðin fimm ár. Brot vegna þess að bílbelti voru ekki notuð voru 1.855 sem er fækkun frá meðaltali 2001-2005.

Þjófnaðarbrot voru 3.457 sem er fjölgun frá síðustu tveimur árum á undan en innbrot voru fátíðari en meðaltal fimm fyrri ára. Flest innbrot voru framin í íbúðarhúsnæði (34%) og á bifreiðastæðum (28%). Alls voru 50 rán tilkynnt sem er svipaður fjöldi og árið 2005.

Tilkynnt var um 281 kynferðisbrot til lögreglu árið 2006 sem er svipaður fjöldi og árið 2005. Þá voru skráðar 67 nauðganir en brotin voru 64 að meðaltali 2001-2005. Kynferðisbrot gegn yngri en 14 ára voru 50% fleiri en meðaltal fimm fyrri ára segir til um en mök við börn uppalanda hins vegar 26% færri en meðaltal 2001-2005.

Ekkert manndráp var framið á Íslandi árið 2006 en tilkynnt um sjö manndrápstilraunir til lögreglunnar. Tilkynnt var um 1.007 líkamsárásir ( 217. gr. hgl.) en meðaltal áranna 2001-2005 er það sama. Flestar líkamsárásir (37%) og líkamsmeiðingar (33%) áttu sér stað utandyra, næstflestar í íbúðarhúsnæði (25% líkamsárása og 29% líkamsmeiðinga) og á skemmtistöðum (24% líkamsárása og 29% líkamsmeiðinga).

Árið 2006 voru skráð fíkniefnabrot 2.098 sem er 55% fjölgun miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Brot er vörðuðu innflutning voru um 30% færri árið 2006 en meðaltal 2001-2005 en brot vegna vörslu og neyslu fíkniefna voru um 80% fleiri. Tekin voru rúm 28 kíló af kannabislaufum, tæp 47 kíló af amfetamíni og tæp 13 kíló af kókaíni og hefur haldlagt magn þessara efna aldrei verið meira.

Skýrslan er aðgengileg hér og á vef ríkislögreglustjóra www.rls.is/tolfraedi undir liðnum Tölfræði / Rannsóknir.