20 Ágúst 2015 10:49

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú gefið út staðfestar tölur um afbrot fyrir landið í heild sinni þar sem gert er grein fyrir brotum sem skráð voru árið 2014 en þá voru lögregluumdæmi landsins 15.

Hegningalagabrotum heldur áfram að fækka milli ára en hegningalagabrot voru 4% færri árið 2014 en 2013. Af hegningarlagabrotum fækkaði kynferðisbrotum, auðgunarbrotum og eignaspjöllum, þegar miðað er við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Ofbeldisbrotum fjölgaði hinsvegar milli ára en slíkum brotum hefur fjölgað stöðugt frá árinu 2011 eða um alls 15% á tímabilinu. Tvö manndráp voru framin á landinu árið 2014 en tilraunir til manndráps voru 5.

Brot gegn valdstjórninni voru fleiri árið 2014 heldur en síðustu ár og hafa í heildina ekki verið fleiri síðan árið 2008. Miðað við íbúafjölda voru flest brot gegn valdstjórninni skráð á Húsavík eða 23 á hverja 10.000 íbúa. Þegar litið er til alls landsins þá voru þau 12 á hverja 10.000 íbúa.

Eins og eðlilegt er átti stærstur hluti hegningarlagabrota sér stað á höfuðborgarsvæðinu, eða um 76% sem er svipað og síðustu ár. Einnig voru flest hegningarlagabrot miðað við íbúafjölda skráð á höfuðborgarsvæðinu eða 384 brot á hverja 10.000 íbúa. Fæst hegningarlagabrot miðað við íbúafjölda voru skráð á Seyðisfirði eða 76 brot á hverja 10.000 íbúa.

Fíkniefnabrotum hefur farið fjölgandi frá árinu 2009 og fjölgaði þeim einnig árið 2014. Þegar miðað er við síðastliðin þrjú ár var hlutfallslega mest fjölgun á fíkniefnabrotum sem snéru að flutningi fíkniefna milli landa, þar á eftir sölu og dreifingu fíkniefna og síðast vörslu/meðferð fíkniefna.

Lögregla og embætti tollstjóra lögðu hald á rúmlega 63 kg. af maríhúana sem er tvisvar sinnum það magn sem tekið var árið áður. Einnig var mun meira haldlagt af LSD, en árið 2014 var lagt hald á 2.761 stk. af LSD en þar telur mest ein stór póstsending sem innihélt 2.500 stk. Talsvert minna magn af kannabisplöntum var haldlagt árið 2014 þegar miðað er við tvö ár á undan. Það sama á við um amfetamín, en töluvert minna magn af því var haldlagt árið 2014 en árið 2013.

Umferðarlagabrotum fjölgaði um 34% milli ára eða úr 37.320 brotum í 50.173 brot. Mest fjölgun var á hraðakstursbrotum en þau voru yfir 37.000 talsins sem jafngildir um 15% aukningu. Þar munaði mestu um 117% fleiri brot sem skráð voru á sjálfvirkar hraðamyndavélar.

Heildarfjöldi allra brota árið 2014 var 66.039 sem er 24% aukning frá árinu áður en 15% aukning þegar litið er til meðalfjölda brota á árunum 2011 til 2013.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér: Afbrotatölfræði 2014.

English summary – Icelandic crime statistics 2014