7 Júlí 2022 09:20

Samantekt á afbrotatölfræði áranna 2018-2020 sýnir að covid-19 setti mark sitt á tíðni afbrota. Nauðgunum fækkaði en á sama tíma fjölgaði kynferðisbrotum gegn börnum.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur unnið að því að gera gögn um afbrot árin 2018-2020 aðgengilegri en áður fyrir almenning. Gögn lögreglu um afbrot á landsvísu hafa verið sett fram í aðgengilegri tölfræðiskýrslu, og er mögulegt að nálgast allar tegundir brota sem skráð voru í málaskrá lögreglu á tímabilinu og greina eftir lögregluembætti, vettvangi og tíma brots.

Opna skýrsluna í nýjum flipa.

Með tölfræðiskýrslunni hefur embættið einnig gefið út stutta samantekt um afbrot árið 2020. Þar kemur m.a. fram að árið 2020 setti Covid-19 faraldurinn mark sitt á tíðni afbrota.  Hegningarlagabrot voru svipuð að fjölda árið 2020 og 2019, en 6% fleiri árið 2020 en síðustu 5 ár á undan. Mest var fjölgun á brotum gegn friðhelgi einkalífs, en þeim fjölgaði um nærri þriðjung. Ofbeldisbrot voru 8% fleiri, og við nánari greiningu þeirra mátti sjá að heimilisofbeldisbrotum fjölgaði. Kynferðisbrot voru svipuð að fjölda miðað við meðaltal síðustu 5 ára, en þegar litið er nánar á einstaka brotaflokka má sjá að nauðgunum fækkaði um fjórðung en blygðunarsemisbrot og kynferðisbrot gegn börnum voru 23-24% fleiri.

Sjá má samantektina í heild sinni hér.