15 September 2014 12:00
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágústmánuð 2014 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Alls bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 363 tilkynningar um þjófnað í ágúst. Ekki hafa borist eins margar tilkynningar um þjófnað í einum mánuði það sem af er ári. Fjölgunina má helst rekja til fleiri innbrota, sérstaklega á heimili. Tilkynnt var um 106 innbrot í ágúst, þar af 37 á heimili. Tilkynnt innbrot eru þó um 20% færri það sem af er ári miðað við sama tímabil síðustu þriggja ára. Fíkniefnabrotum fjölgar lítillega á milli mánaða, eða um 5%. Fjölgunin er hinsvegar meiri, eða um 43%, ef litið er til fjölda fíkniefnabrota það sem af er ári í samanburði við meðaltal síðustu þriggja ára. Eins eykst ofbeldi gagnvart lögreglumönnum. Í ágúst voru skráð átta tilvik þar sem lögreglumaður hefur verið beittur ofbeldi og hefur slíkum tilvikum fjölgað um 20% það sem af er ári miðað við meðaltal síðustu þriggja ára.
Skýrsluna má nálgast hér.