24 Október 2013 12:00

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir septembermánuð 2013 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins.

Tilkynnt var um 303 þjófnaði í september, sem er fækkun á milli mánaða og jafnframt minnsti fjöldi í mánuði síðan í nóvember á síðasta ári. Tilkynnt var um 55 innbrot í september, sem er fækkun á milli mánaða en um leið lægsta tala í einum mánuði sem mælst hefur í málaskrá lögreglu frá upphafi talninga á brotum. Innbrotum á heimili, í fyrirtæki og verslanir fækkaði, á sama tíma og innbrotum í stofnanir og ökutæki fjölgaði. Í viðauka er að finna kort sem sýna dreifingu innbrota á höfuðborgarsvæðinu í september eftir svæðum innan höfuðborgarsvæðisins. Einnig er fjallað sérstaklega um þróun og dreifingu innbrota í viðaukanum.

Tilkynningum um eignaspjöll fækkaði á milli mánaða og voru 107 talsins í september.

Skráð voru 54 ofbeldisbrot (217. og 218. gr. hgl.) á höfuðborgarsvæðinu í september, sem er fjölgun frá síðasta mánuði.

Umferðarslys voru 28 í september, sem er nokkur fækkun frá síðasta mánuði.

Skýrsluna má nálgast hér.