14 September 2012 12:00

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágústmánuð 2012 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins.

Helstu tíðindin er hinn mikli árangur sem náðst hefur í fækkun innbrota, en í samanburði við sama tímabil á síðasta ári hefur orðið fjórðungsfækkun. Sé borið saman við meðaltal síðustu þriggja ára á undan þá hefur innbrotum fækkað um helming. Fjöldi innbrota á höfuðborgarsvæðinu var í ágústmánuði 67 brot, en það er minnsti fjöldi tilkynntra brota sem skráður hefur verið í málaskrá lögreglu í einum mánuði. Í ágústmánuði 2009 var fjöldi tilkynninga fjórum sinnum meiri. Árangurinn má meðal annars þakka markvissum aðgerðum lögreglu í því að taka úr umferð virkustu brotamennina og koma málum þeirra í viðeigandi farveg.

Annars hefur þjófnuðum almennt fækkað um sjö prósent á milli ára. Af öðrum brotum má nefna að eignaspjöllum hefur fækkað um 16 prósent það sem af er ári, en ofbeldisbrotum hefur fjölgað um fimm prósent. Öllum þessum brotum hefur aftur á móti fækkað verulega sé borið saman við meðaltal síðustu þriggja ára.

Umferðarslysum hefur fækkað um níu prósent á þessu ári, sé borið saman við sama tímabil í fyrra. Fækkunin er 14% þegar borið er saman við meðaltal síðustu þriggja ára.

Skýrsluna má nálgast hér.