19 Apríl 2013 12:00

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð 2013 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins.

Í skýrslunni má m.a. lesa að tilkynningum um hnupl og þjófnaði á reiðhjólum og skráningarmerkjum fjölgaði, á meðan innbrotum fækkaði en litlar breytingar urðu á fjölda tilkynninga um annarskonar þjófnaði. Nú fer sá tími í hönd þar sem fjöldi reiðhjólaþjófnaða stígur ört og er eigendum reiðhjóla ráðlagt að ganga jafnan tryggilega frá hjólum sínum og skrá hjá sér stellnúmer. Fjöldi þjófnaða á gsm símum hefur stigið á síðustu mánuðum og var áfram hár í mars. Nokkuð hefur borið á því að dýrari gerðir af símum hverfi á veitingahúsum borgarinnar og er full ástæða til að minna fólk á að hafa gætur á munum sínum á skemmtanalífinu.

Skýrsluna má nálgast hér.