31 Janúar 2013 12:00

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2012 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins. Í skýrslunni eru að þessu sinni einnig teknar saman bráðabirgðatölur um fjölda helstu brota árið 2012 í heild. Hafa ber þann fyrirvara á þessum upplýsingum að tölur fyrir árið 2012 eiga enn eftir að breytast. Þessar upplýsingar gefa þó innsýn í það hvert stefnir.

Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu fækkaði þjófnuðum um 10 prósent árið 2012 samanborið við 2011. Innbrotum fækkaði um þriðjung árið 2012 frá árinu á undan. Miðað við þessar tölur voru framin á bilinu tvö til þrjú innbrot á dag á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 samanborið við fjögur á dag árið áður. Að meðaltali var framið eitt innbrot á dag á heimili á árinu 2012. Ofbeldisbrotum fjölgaði um 4 prósent, en að meðaltali var tilkynnt um 13 líkamsárásir í hverri viku á árinu 2012. Skemmdarverkum fækkaði um 16,5 prósent frá árinu á undan.

Í skýrslunni má m.a. lesa að tilkynntum þjófnuðum og  innbrotum fjölgaði á milli nóvember og desember. Fjölgun innbrota má rekja til nokkurra þjófagengja sem brutust inn á heimili. Þar á meðal voru tveir erlendir ríkisborgarar sem stálu nær eingöngu skartgripum. Tókst lögreglu að hafa hendur í hári þjófanna og eru flest þessara mála því upplýst. Í skýrslunni eru birt kort sem sýna þéttni á dreifingu innbrota á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarslys voru 36 í desember sem er fjölgun frá nóvembermánuði og jafnframt mesti fjöldi í einum mánuði á árinu 2012.

Skýrsluna má nálgast hér.

Þéttni allra tilkynntra innbrota á höfuðborgarsvæðinu árið 2012.

Þéttni allra tilkynntra innbrota á höfuðborgarsvæðinu árið 2012.