31 Maí 2019 09:25

Afbrot á landsvísu
Hegningarlagabrot á landsvísu voru 4% fleiri en meðalfjöldi brotanna 2015-2017. Hlutfallsleg aukning árið 2018 miðað við meðaltal síðustu þriggja ára var mest í skjalafalsi (43%), en aukning var á brotum vegna falsaðra vegabréfa. Þá voru brot gegn valdstjórninni 39% fleiri en síðustu 3 ár, aðallega því „fyrirmælum lögreglu var ekki hlýtt“. Auðgunarbrot voru hins vegar 4% færri en síðustu 3 ár á undan. Fækkun varð á þjófnuðum um 13% en fjölgun á innbrotum um 14%. Þá voru rán óvenju mörg eða 77 talsins, sem er um 50% fleiri brot en meðaltal síðustu þriggja ára. Fjársvikum fjölgaði um 28% miðað við síðustu þrjú ár, en skv. flokkun brotanna í málaskrárkerfi lögreglu féllu fleiri þessara brota undir netbrot 2017 og 2018 en árin á undan.

Þegar flokkar innan sérrefsilagabrota eru skoðaðir nánar má sjá að fíkniefnabrot og áfengislagabrot eru um helmingur brotanna. Brotin voru fleiri en síðustu 3 ár á undan. Mjög margir ólíkir brotaflokkar falla undir sérrefsilagabrot. Þegar rýnt er nánar í aðra flokka en fíkniefnabrot og áfengislagabrot má sjá t.d. að brot gegn vopnalögum voru 484 árið 2018, en 528 árið á undan (↓8%). Þá voru brot gegn lyfjalögum 369 árið 2018 og en árið þar á undan voru brotin 330 (↑12%). Brot sem féllu undir „tollalög, ólöglegur innflutningur“ fjölgaði og voru 218 talsins, en árið 2017 voru þau 192 (↑14%) og 114 árið þar á undan. Þá voru brot gegn barnaverndarlögum 200 sem er svipaður fjöldi og árið á undan.

Umdæmi lögreglunnar eru níu, og var stærstur hluti hegningarlagabrota skráður á höfuðborgarsvæðinu eða um 81% sem er svipað hlutfall og í fyrra, enda langstærsti hluti íbúa sem býr á því svæði. Þá voru einnig flest hegningarlagabrot á hverja 10 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu, eða 426. Flest sérrefsilagabrot á íbúa voru á Suðurnesjum (278 brot á íbúa).

Afbrotatölfræði fyrir árið 2018 má finna hér.
Talnaefni (excel skrá) má finna hér.