27 September 2017 11:43

Innbrot hafa aldrei verið færri, sé litið til þróunar á landsvísu frá síðustu aldamótum. Hins vegar fjölgaði skráðum brotum gegn friðhelgi einkalífs um 42% og ofbeldisbrotum um 20% miðað við meðaltal árin 2013-2015, sem má að miklu leyti rekja til breyttrar skráningar í heimilisofbeldismálum. Þá fjölgaði nytjastuldum um 20% miðað við meðaltal þriggja ára á undan. Eitt manndráp var framið en árið 2015 voru þau þrjú. Tilraunir til manndráps voru sex. Þetta kemur fram í Afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra 2016, þar sem fjöldi afbrota fyrir allt landið er tekinn saman.

Fíkniefnabrot voru 1.873 sem jafngildir um 5 slíkum brotum á dag. Brotin voru færri miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan og munar þar mestu um brot vegna vörslu og/eða meðferðar fíkniefna. Lögregla og tollgæsla lögðu m.a. hald á 43 kíló af maríhúana og um 12.800 kannabisplöntur. Þá var lagt hald á 1 kg af metamfetamíni en meðaltal síðustu 5 ára var 110 g á ári. Þá var lagt hald á meira af kókaíni árin 2015-2016 miðað við síðustu ár, en 8 kg voru haldlögð 2016, tæp 10 árið 2015 en að meðaltali tæp 4 kg. á ári síðustu 5 ár á undan.

Umdæmi lögreglunnar eru níu, og var stærstur hluti hegningarlagabrota skráður á höfuðborgarsvæðinu eða um 78% sem er mjög svipað og í fyrra, enda langstærsti hluti íbúa sem býr á því svæði. Flest hegningarlagabrot á íbúa voru hins vegar í Vestmannaeyjum sem rekja má m.a. til óvenju margra auðgunarbrota, en fámenn umdæmi eins og Vestmannaeyjar eru viðkvæm fyrir breytingum á brotafjölda þegar reiknuð eru brot á hvern íbúa.

Umferðarlagabrot voru rétt yfir 70 þúsund og hafa aldrei verið fleiri, sem rekja má til fjölgunar hraðakstursbrota á hraðamyndavélar. Flest slík brot á íbúa voru á Suðurlandi, eða um 5.700 brot á hverja 10 þúsund íbúa.

Skýrsluna má finna hér.
Talnaefni fyrir allt landið (excel skrá) má finna hér.