1 Nóvember 2013 12:00

Fleiri afbrot komu til kasta lögreglu árið 2012 heldur en árið 2011 en heildarfjöldi brota yfir allt landið fór úr 57.021 í 61.837 sem þýðir 8,4% aukningu á milli ára. Þegar litið er til meðalfjölda brota síðustu þriggja ára á undan má sjá að meðalfjöldinn var 68.438 brot á ári. Þetta þýðir að þrátt fyrir fjölgun brota árið 2012 miðað við árið á undan voru brotin 9,6% færri en þau hafa verið að meðaltali síðustu þrjú ár á undan.

Fíkniefnabrotum fjölgaði hlutfallslega mest allra brota þegar miðað er við meðalfjölda brota á árunum 2009 til 2011. Ef miðað er við sama tímabil má sjá fjölgun í öllum undirflokkum kynferðisbrota, það er blygðunarsemisbrotum, nauðgunum, brotum sem tengjast klámi/barnaklámi, kynferðisbrotum gegn börnum, kynferðislegri áreitni og vændi.

Umferðarlagabrotum fjölgaði frá árinu 2011 til 2012 og er það í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem brotum í þessum brotaflokki fjölgar milli ára.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Afbrotatölfræði 2012. Skýrslan er gefin út af ríkislögreglustjóra og þar eru birtar staðfestar tölur um afbrot fyrir allt landið árið 2012. Gögn fyrir skýrsluna voru tekin út í maí 2013 en það er gert til að tryggja að rannsókn mála frá árinu 2012 sé að mestu lokið hjá lögreglu þegar úttekt fer fram.Skýrslan er aðeins gefin út á rafrænu formi. Hún er aðgengileg hér og á vef ríkislögreglustjóra, www.rls.is, undir liðnum Tölfræði/rannsóknir á vinstri valrönd.

Ítarlegri tölfræðiupplýsingar fyrir árið 2012 og aftur til ársins 2008 má sjá í töflunni Allir brotaflokkar – Tafla 2012. Tölur frá árunum 2001 til 2012 verða svo birtar á töfluformi á vef ríkislögreglustjóra á næstu dögum/vikum.