28 Janúar 2013 12:00

Lögreglunni á Suðurnesjum var í fyrrinótt tilkynnt um að maður væri liggjandi fram á stýri kyrrstæðrar bifreiðar á miðri akbraut í Keflavík. Þegar lögregla kom á vettvang reyndust vera tveir menn í bílnum og báðir hreyfingarlausir. Ökumaðurinn lá fram á stýrið og svaraði ekki þegar reynt var að ná sambandi við hann. Hann brást illa við þegar hann var tekinn út úr bílnum. Mennirnir, sem báðir eru um tvítugt, voru handteknir og færðir á lögreglustöð. Var þá farþeginn enn áfengisdauður og ástand ökumanns litlu skárra. Tekin var skýrsla af þeim þegar þeir máttu mæla og þeim síðan sleppt.

Barði skemmtistað með spýtu

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um helgina að maður væri að berja og brjóta rúður á skemmtistað í umdæminu með spýtu. Skemmdarvargurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn, en vitað er hver þarna var að verki. Hann hafði fyrr um kvöldið sést við annan skemmtistað, þá einnig með spýtu, sem hann var að veifa í kringum sig.

Fékk stálbita í andlitið

Það óhapp varð um borð í bát að einn skipverja fékk stálbita í andlitið. Maðurinn stóð fyrir aftan annan skipverja sem hélt á stálbitanum. Þegar sá síðarnefndi snéri sér snögglega við lenti stálbitinn í andliti vinnufélaga hans. Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd á vettvang og ræddu lögreglumenn við málsaðila. Tvær tennur höfðu brotnað í skipverjanum sem fyrir stálbitanum varð, en að öðru leyti slapp hann ómeiddur.

Stal kremdollum

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um þjófnað úr verslun í umdæminu um helgina. Þar hafði verið á ferðinni kona á þrítugsaldri, sem sást stinga tveimur dósum með andlitskremi í bakpoka sinn. Starfsmaður verslunarinnar varð vitni að hnuplinu og stöðvaði konuna. Kremin fundust í bakpoka henar og viðurkenndi hún þjófnaðinn.