31 Ágúst 2010 12:00
Lögreglan fylgist með að farið sé eftir skilyrðum laga og reglna. Áfengisveitinga- og skemmtanaleyfi eru háð ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru m.a. tiltekin í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Markmið laganna er að „tryggja allsherjarreglu í starfsemi veitinga- og gististaða og við skemmtanahald og stuðla að stöðugleika í rekstri, sem og að starfsemi falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags hverju sinni“.
Áður en leyfi er gefið þarf leyfisveitandi leita umsagna eftirtalinna aðila í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð og skulu umsagnir vera skýrar og rökstuddar: 1. Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um. 2. Heilbrigðisnefndar sem gætir að samræmi við starfsleyfi og metur grenndaráhrif starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist. 3. Slökkviliðs sem staðfestir að kröfum um brunavarnir sé fullnægt. 4. Vinnueftirlits sem m.a. kannar hvort aðstæður á vinnustað séu í samræmi við ákvæði laga og reglna. 5. Byggingarfulltrúa sem m.a. staðfestir að starfsemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála sem og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu. 6. Lögreglu sem m.a. kveður á um nauðsyn til dyravörslu.
Að undanförnu hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurft að biðja forsvarsmenn einstaka skemmtistaða, sem leyfi hafa til að hafa opið að næturlagi og fram undir morgun um helgar, að minnka hávaða svo nálægir íbúar geti sofið. Flestir hafa tekið þeirri umleitan lögreglu vel, þó ekki allir. Hafa ber í huga að rekstur flestra skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu fer fram í húsnæði, sem upphaflega var byggt fyrir verslunarrekstur og var staðsetningin þá miðuð við hann. Þegar hefja á nýja og ólíka starfsemi á öðrum tíma sólarhingsins þarf eðlilega að gera strangari kröfur m. v. þá tilteknu starfsemi þar sem tekið er sérstakt tillit til staðsetningar og allsherjarreglu skv. markmiði gildandi laga.
Jafnframt hefur lögreglan þurft að gera athugasemdir við að leyfishafar virði ekki önnur skilyrði laganna, s.s. vegna þess að of ungt fólk sé inni á áfengisveitingastöðum, hleypt sé inn á þá allt of mörgum umfram leyfilegan gestafjölda, gestir gangi út með áfengi í flöskum og glösum þrátt fyrir bann þess efnis, hávaði og óþrifnaður utan við staðina sé óþolandi og að opið sé lengur en heimildir kveða á um.
Lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi, að fylgt sé skilyrðum sem leyfi er bundið, svo sem um dyravörslu, leyfilegan afgreiðslutíma og gestafjölda, einnig að fylgt sé ákvæðum laganna um dvöl ungmenna á veitingastöðum og um áfengisveitingar. Lögreglustjóri skal án fyrirvara eða aðvörunar stöðva leyfisskylda starfsemi sem fer fram án tilskilins leyfis. Á það við um eftirfarandi tilvik: a. Þegar ekki hefur verið gefið út rekstrarleyfi vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi, útrunnið rekstrarleyfi hefur ekki verið endurnýjað, nýr rekstraraðili hefur ekki fengið útgefið nýtt rekstrarleyfi, rekstrarleyfi hefur verið lagt inn, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því. b. Þegar leyfisskyld starfsemi fer út fyrir mörk og skilmála útgefins rekstrarleyfis, svo sem varðandi heimilaðan afgreiðslutíma og þá tegund leyfisskyldrar starfsemi sem hið útgefna rekstrarleyfi tekur til. c. Þegar veitingar áfengis, sem leyfisskyldar eru fara fram án tilskilins leyfis eða út fyrir mörk og skilmála útgefins leyfis. Lögreglustjóri skal jafnframt slíta samkomu ef hún brýtur gegn ákvæðum laga eða brotin eru fyrirmæli eða skilyrði sem leyfisveitandi hefur sett, ef regla á samkomu er eigi nægilega góð eða þegar slík samkoma fer fram án tilskilins leyfis.
Leyfisveitanda er heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfi tímabundið verði hann eða forsvarsmaður hans uppvís að því að misnota rekstrarleyfið eða vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögunum eða öðrum lögum sem um reksturinn gilda eða brjóti hann að öðru leyti gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins.
Misbeiti leyfishafi sem hefur leyfi til veitingar áfengis leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt gegn fyrirmælum sem um áfengisveitingar gilda, varðar það refsingu samkvæmt áfengislögum.
Lögreglan hefur jafnan reynt að eiga gott samstarf við handhafa áfengisveitinga- og skemmtanaleyfa. Flestir hafa virt skilyrði leyfanna í hvívetna. Það er von lögreglu að hinir reyni það einnig eftir fremsta megni. Fylgst verður náið með að það verði gert.