24 Júní 2003 12:00

Miðvikudaginn 2. júlí mun afgreiðsla Lögreglustjórans í Reykjavík flytja sig um set frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu inn í Borgartún 7.  Afgreiðslan mun fá stærra húsnæði en hún nú hefur sem gefur möguleika á að sameina á einum stað alla afgreiðslu embættisins vegna ökuskírteina, skotvopnamála, skemmtanaleyfa og margvíslegra annarra leyfa sem sótt er um hjá lögreglu.  Stefnt er að því að þjónusta við borgarana verði a.m.k. jafn góð og hingað til og vonandi betri.  Afgreiðsla og útgáfa vegna skotvopnamála, skemmtanaleyfa og annarra mála sem verið hafa í leyfadeild embættisins færast inn í afgreiðsluna.  Þessi breyting mun taka nokkurn tíma og eru veitingamenn, skotveiðimenn og aðrir sem leita þurfa til embættisins vegna þessa beðnir að sýna þolinmæði fyrst í stað meðan breytingarnar ganga yfir.

Það húsnæði sem losnar á lögreglustöðinni mun verða notað til að bæta aðstöðu rannsóknadeildar embættisins sem búið hefur við þröngan kost síðustu árin.

Afgreiðslan verður eins og fyrr segir í Borgartúni 7 (húsið er áfast Heimilistækjum) og er gengið inn frá Borgartúni á horni byggingarinnar.  Aðkoma og bílastæði eru með ágætum rétt við afgreiðsluna.  Opnunartími er eins og fyrr frá 8:45 til 16:00 mánudaga til föstudaga.

Sólmundur Már Jónsson

framkvæmdastjóri rekstrar- og þjónustusviðs