26 Janúar 2016 14:56

Núna í janúar afhenti Kiwanisklúbburinn Helgafell með rausnarlegum styrk sínum embætti Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum nýjan leitarhund, leitarhundinn Rökkva, sem er svartur labrador retriever og kemur frá viðurkenndum hundaræktanda Noregi.

Það má segja að Kiwanisklúbburinn Helgafell eigi þetta verkefni lögreglunnar með húð og hári, án þeirra byggjum við ekki svo vel að hafa fíkniefnaleitarhund að störfum hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum en svona hundur er eitt mikilvægasta tæki lögreglunnar í baráttunni við fíkniefni.

Fyrsta hundinn gaf Kiwanisklúbburinn lögreglunni árið 2001 sem var Tanja þýskur fjárhundur, næsta hund gáfu þeir árið 2008 og það er hún Lúna sem er enskur springer spaniel og er hún enn í þjónustu okkar en er að eldast. Lúna er nú orðin hjartveik og það styttist í að hún hætti að geta unnið sem leitarhundur. Vinna þessara hunda reynir mikið á þá og þeir þurfa að vera í toppstandi til að sinna henni því þeir þurfa að hafa mikið úthald.

Þriðja hundinn fengum við afhentan frá þeim Kiwanis félögum núna í janúar og er því gleðistund hér á lögreglustöðinni og í samfélaginu hér í Vestmannaeyjum. Við höfum séð í gegnum árin hversu miklu þessir hundar hafa skilað samfélaginu. Þeir eru gríðarlega mikilvægir bæði í forvörnum og eins við að upplýsa mál, finna efni og það sem mikilvægast er að koma efnunum úr dreifingu og alfarið úr umferð.

Rökkvi er fæddur í febrúar, hlaut grunnþjálfun í Noregi og er enn í þjálfun og kemur til með að taka við af Lúnu innan tíðar. Umsjónarmaður hans er Heiðar Hinriksson, varðstjóri sem er viðurkenndur hundaþjálfari og hefur haft umsjón með öllum hundum lögreglunnar í Vestmannaeyjum og því þrautreyndur í þessum störfum og eflaust alltaf líf og fjör á heimili hans. Hann hefur nú tekið við Rökkva á heimili sitt, þar sem Lúna er fyrir. En eins og gefur að skilja eru þetta dýr sem þurfa að eiga sína fjölskyldu og sitt heimili eigi þeim að líða vel, þeir eru ekki geymdir inni í skáp á lögreglustöðinni á milli atriða.

Embætti Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er Kiwanis félögum gríðarlega þakklátt fyrir þessar rausnarlegu gjafir. Það er auðvitað svekkjandi að ekki fáist fé á fjárlögum fyrir verkefni sem þessu en þarna skipta góðgerðarfélög eins og Kiwanis sköpum til að vernda samfélag okkar fyrir þeim vágesti sem fíkniefni eru. Fíkniefnum hefur ekki fækkað á markaði og síður en svo því miður, og er farið að bera nokkuð á því að minna er innflutt til landsins en þeim mun meira framleitt hér heima. Fíkniefni hafa eyðilagt margar fjölskyldur og tekið líf fjölda fólks, annað hvort haldið þeim í heljargreipum eða orðið þeim að bana. Lögreglan er gríðarlega þakklátt fyrir stuðning Kiwanis og telur stuðning þeirra þarft samfélagslegt verkefni sem kemur til með að vernda fjölskyldur, börn og ungt fólk og koma í veg fyrir að fíkniefni fái að vaða hér uppi. Fíkniefnaleitarhundur er eitt öflugasta tæki sem lögregla getur notað við þá vinnu sína.

Lögreglan mun gera sitt best til að halda uppi virku fíkniefnaeftirliti eftir sem áður og lýsir yfir gríðarlegu þakklæti til Kiwanisklúbbsins Helgafells og allra félaga þeirra og velunnara.

Rökkvi