24 Janúar 2011 12:00

Umferðardeild lögreglunnar fagnaði 50 ára afmæli síðasta sumar en tilkynnt var um stofnun hennar á fundi yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík þann 16. júní 1960. Aðaluppistaða deildarinnar var bifhjólasveit lögreglunnar, svo og lögregluþjónar á öðrum vélknúnum farkosti eftir því sem aðstæður leyfðu. Í tilefni afmælisins hefur verið gefið út lítið vefrit þar sem birtar eru nokkrar myndir úr starfinu sem og frá afmæliskaffinu. Þá er ennfremur rætt við Magnús Einarsson yfirlögregluþjón en hann starfaði einmitt í umferðardeildinni á upphafsárum hennar en vefritið má nálgast hér.

Eins og við var að búast vakti stofnun umferðardeildar nokkra athygli en um málið var fjallað í einu dagblaðanna 21. júní 1960: Vísi bárust fréttir af að búið væri að stofna nýja deild, svokallaða umferðardeild, innan lögreglunnar. Eru í deildinni menn með 3 bíla og 8 mótorhjól. Aðsetur deildarinnar er í einum af skálunum í skátaheimili og telja þeir það mjög heppilegan stað fyrir starfsemi sína. Starfið hefst á hverjum morgni kl. 10, og er þá allt sett á stað, hvert mótorhjól fær sitt hverfi, en þau eru 8 alls sem fyrr segir og eru bílarnir þeim til aðstoðar. Einnig tekur einn bíllinn hverfi alveg, bili eitthvert mótorhjólanna. Vaktirnar eru 3 og sömu mótorhjólin alltaf notuð en sérstaka þjálfun þarf í meðferð þeirra, sérstaklega hinna stærri. Bent er á að ýmislegt fleira tengt umferðardeildinni má lesa í bókinni Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga en hún kom út árið 1997.

Forsíða vefritsins.