23 Nóvember 2010 12:00

Að vanda voru umferðarmál nokkuð til umræðu þegar fulltrúar íbúa í Hlíðunum í Reykjavík funduðu með lögreglunni á árlegum fundi þeirra sem nú var haldinn í félagsmiðstöðinni í Lönguhlíð 3. Sem fyrr er hraðakstur eitt helsta áhyggjuefnið og hafa lögreglu borist allnokkrar ábendingar þar um. Við þeim hefur verið brugðist með eftirliti og hraðamælingum í hverfinu en niðurstöður úr þeim eru sendar borgaryfirvöldum svo til jafnóðum. Það er einmitt borgarinnar að bregðast við með hraðahindrandi aðgerðum þar sem við á en sumir fundarmanna töldu ekki nóg að gert í þeim efnum. Þess má jafnframt geta að niðurstöður hraðamælinga lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í íbúðahverfum í umdæminu er hægt að nálgast á lögregluvefnum. Ómerkt lögreglubifreið, sem er búin myndavélabúnaði, er notuð til að sinna þessu mikilvæga verkefni sem hér hefur verið nefnt. Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf.

Margt fleira var auðvitað rætt en hljóðið í fundarmönnum var almennt mjög gott og ekki annað að heyra en þeir væru ánægðir með lögregluna og hennar störf. Farið var yfir þróun brota í Hlíðunun undanfarin ár en þá tölfræði má nálgast hér. Eftir óheillaþróun á síðasta ári hefur tekist að snúa við blaðinu og innbrotum í hverfinu hefur fækkað verulega. Það á ekki síst við um innbrot á heimili en um er að ræða tímabilið frá ársbyrjun til októberloka. Séu þessir fyrstu tíu mánuðir ársins bornir sama við sömu mánuði áranna 2007 og 2008 er útkoman nú sömuleiðis betri en þá hvað viðkemur fjölda innbrota á heimili. Athygli vekur líka að tilkynningum um eignaspjöll í Hlíðunum hefur fækkað nokkuð frá því í fyrra. Af framansögðu má ætla að ástandið í Hlíðunum sé ágætt þótt auðvitað vilji lögreglan gera enn betur.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is