5 Október 2007 12:00

Nýtt og breytt fyrirkomulag starfa ákærenda hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var kynnt á blaðamannafundi í dag. Þar var sömuleiðis birt skipurit ákærusviðs, sem má nálgast hér, en fréttatilkynninguna, sem var gefin út vegna blaðamannafundarins, er að finna í heild sinni hér að neðan.

Starfsmenn ákærusviðs ásamt lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjórum.

Við stofnun embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót var frá upphafi lögð áhersla á að styrkja og efla lögreglurannsóknir og til þess að ná því fram var settur við hlið hverrar rannsóknardeildar lögfræðingur, sem helgaði sig málum deildarinnar. Hlutverk lögfræðingsins er ekki bein þátttaka í rannsóknum mála heldur á hann að veita hvers konar lögfræðilegar leiðbeiningar vegna lögreglurannsókna og að setja fram kröfur fyrir dómstólum í þágu rannsóknar og meðferðar mála, svo sem um húsleit, handtöku, gæsluvarðhald o.s.frv. Fyrirkomulag þetta hefur reynst vel og á að festa enn frekar í sessi, en jafnframt á að auka til muna sérhæfingu með því að skipa ákærendum þannig til verka að þeir vinni að afmörkuðum málaflokkum í deildum.

Jafnframt þessu er nú stofnað ákærusvið við hlið almennrar löggæslu. Með því verður stutt betur við almenna löggæslu og tryggð hröð og skilvirk meðferð mála þannig að ljúka megi sem flestum viðfangsefnum í beinu framhaldi af afskiptum lögreglu með sáttameðferð eða útgáfu ákæru. Markmið þessara breytinga er að tryggja fljótvirkari og jafnframt skilvirkari afgreiðslu mála og málefna almennu deildar. Málsmeðferð mála almennrar löggæslu í þessa veru hefur verið hrint í framkvæmd að hluta með afgreiðslu brota gegn lögreglusamþykkt undanfarna mánuði. Með þessari breytingu verður stutt betur við störf hins almenna lögreglumanns og þar með styrkt og efld hin almenna löggæsla.

Skipan þessi gerir ráð fyrir því að starfsemi ákæru- og lögfræðisviðs embættisins verði skipt í þrjú svið. Svið þar sem til meðferðar eru brot gegn almennum hegningarlögum, svið sem hefur til meðferðar brot gegn sérrefsilögum, og svið sem fjallar um málefni almennrar löggæslu. Einn aðstoðarsaksóknari verður yfir hverju sviði og gegnir hann starfi sviðstjóra, jafnframt því að stjórna einni af deildum sviðsins.

Deildirnar verða átta og afmarkast af brotaflokkum með líkri skipan og gert er með lögreglurannsóknir. Brotum gegn almennum hegningarlögum er skipt í megindráttum í þrjár deildir, kynferðisbrot, ofbeldis- og líkamsmeiðingabrot og auðgunar- og fjármunabrot. Svið sérrefsilagabrota er skipt í fíkniefnabrot, umferðalagabrot og önnur sérrefsilagabrot. Skipting sviðs almennrar löggæslu er annarsvegar viðfangsefni almennu deildar lögreglu og erlend réttaraðstoð og mál vegna nálgunarbanns og hinsvegar mál frá hverfisstöðvum og mál vegna afbrota útlendinga og málefni lögreglu vegna eftirlits með útlendingum.

Yfir hverri deild verður aðstoðarsaksóknari, en deildirnar verða skipaðar tveim til fimm lögfræðingum eftir viðfangsefnum. Einn lögfræðingur í hverri deild hefur að viðfangsefni, eins og áður er fram komið, að veita lögreglurannsóknardeild leiðbeiningar og liðveislu. Undir stjórn aðstoðarsaksóknarans framkvæma lögfræðingar deildarinnar og ganga frá sektarmálum og sektargerðum og undirbúa mál til ákvörðunar um saksókn og fylgja málum eftir fyrir dómstólum með málsmeðferð og málflutningi eftir atvikum. Skipan ákæruvalds og starfsmanna þess með þessum hætti er til þess fallin að tryggja samræmi og samfellu við rannsókn og ákærumeðferð mála.

Lög um meðferð opinberra mála, þar sem fjallað er um skipan ákæruvalds, fjalla eingöngu um lögreglustjóra og saksóknara utan embættis ríkissaksóknara, þó þar sé enn fremur gert ráð fyrir löglærðum fulltrúum þeirra. Þrátt fyrir að lögin fjalli ekkert frekar um skipulag ákæruvalds og skipan starfsmanna ákærenda til starfa, annarra en lögreglustjóra og saksóknara, er ekkert sem hindrar að það sé gert innan þess ramma sem leiðir af ákvæðum laganna. Hið nýja fyrirkomulag hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu felur í sér skipulag sem gefur möguleika á sérhæfingu og að byggt verði á reynslu og sérþekkingu, sem gefur jafnframt reyndum lögfræðingum á sviði sakamála, færi á því að taka á sig aukna ábyrgð og stjórnun annarra ákærenda í umboði lögreglustjóra og saksóknara, sem fara með ákæruvald embættisins.

Um síðustu áramót tók hið nýstofnaða embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við umtalsverðum fjölda mála, sem safnast hafði upp á árinu 2006 hjá lögregluembættunum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík. Tekist hefur að koma öllum þeim málum í viðeigandi meðferð, jafnframt því að vinna að málum hins nýja embættis og að byggja upp starfsemi þess. Þar sem nú er komin nokkur reynsla á starfsemi embættisins og með því að ákæru- og lögfræðisvið embættisins flyst í húsnæði við hlið aðalstöðvarinnar, er nú ráðist í að koma þeim breytingum á sem að framan er lýst. Með skipulagi því sem skipan þessi felur í sér er markmiðið að auka öryggi, skilvirkni og gæði málsmeðferðar og að stytta málsmeðferðartíma almennt, sem er afar þýðingarmikið og gerð er æ ríkari krafa um.