20 Maí 2009 12:00
Lögreglan á Selfossi hefur fengið ábendingar um akstur fjórhjóla og torfæruhjóla utan vega og slóða á Hengilssvæðinu og víðar um Árnessýslu. Slíkt er bannað eins og kunnugt er. Ekki á að dyljast nokkrum manni að akstur af þessu tagi veldur gróðurspjöllum og það sem verra er að hver sá sem sér hjólför eftir annan telur sig mega nýta sér þau og þar með myndast á skömmum tíma slóði sem verður varanlegur. Erfitt hefur verið að fást við þessi brot. Hvort tveggja er að sönnunarfærsla er þung og margir þessara manna sem aka utan vegar og eru kærðir velta hverjum steini til að leita leiða til að komast hjá sakfellingu. Lögreglan mun halda uppi eftirliti með utanvegaakstri eftir því sem hægt er. Kvartanir hafa borist lögreglu alls staðar að úr sýslunni um akstur þessara ökutækja um hollt og hæðir. Um hverja helgi má sjá ökutæki með kerru sem á eru tvö eða fleiri torfærutæki streyma austur eftir Suðurlandsvegi svo ljóst má vera að talsverð aukning er á notkun þessar tækja. Lögreglan skorar á ökumenn torfærutækja og jeppabifreiða að halda sig á vegum og viðurkenndum slóðum og hlífa náttúrunni. Aðrir eru beðnir að standa vaktina með lögreglunni og gera viðvart verði þeir varir við akstur utan vega og eftir atvikum að taka ljósmyndir af ökutækjunum sem lögreglan gæti nýtt sér við rannsókn mála.