7 Júní 2022 13:03

Vitundarátakið; Aktu varlega! – mamma og pabbi vinna hér, mun standa yfir í sumar. Af því tilefni var ritað undir viljayfirlýsingu þess efnis og kynnt til leiks eftirtektarverð skilti á morgunverðarfundi um öryggi starfsfólks við vegavinnu sem Vegagerðin stóð fyrir þriðjudaginn 7. júní 2022. 

Vegagerðin, í samstarfi við Samgöngustofu, Ríkislögreglustjóra og verktakafyrirtækin Ístak, Colas Ísland hf. og Borgarverk efna til vitundarátaksins: Aktu varlega! – mamma og pabbi vinna hér, sem felst í að beita sér fyrir aukinni vitund vegfarenda um öryggi starfsfólks við vegavinnu.

Hönnuð hafa verið áberandi og öðruvísi skilti sem afhjúpuð voru á morgunverðarfundinum. Skiltin verða notuð við framkvæmdasvæði á vegum landsins í sumar meðan átakið stendur yfir.

Vegavinna í nálægð við þunga og hraða umferð getur verið stórhættuleg þeim sem við hana vinna. Því eru vinnusvæði ávallt vel merkt og hraði tekinn niður með umferðarskiltum. Því miður hefur það ekki alltaf borið árangur og hraði í gegnum vinnusvæði er oft mikill sem eykur mjög hættu fyrir starfsfólk.

Á morgunverðarfundinum sagði Grétar Einarsson, verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Selfossi, frá sinni reynslu af því að vinna á vegum úti, og frá þeim fjölmörgu skiptum þar sem hurð hefur skollið nærri hælum á vinnusvæðum í nálægð við þunga umferð. Víkingur Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, lýsti því hvaða reglur gilda um merkingu vinnusvæða og Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland hf., sagði frá reynslu fyrirtækis síns af öryggi við vegavinnu, en Colas Ísland hf. hefur mikinn metnað fyrir því að auka öryggi starfsfólks síns. Í lok morgunverðarfundarins kynntu þau Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vestursvæðis, og Linda Björk Árnadóttir, öryggisstjóri Vegagerðarinnar vitundarátakið; Aktu varlega! -mamma og pabbi vinna hér. Þau afhjúpuðu skilti sem hönnuð voru af hönnunarstofunni Kolofon og að lokum rituðu fulltrúar Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Ríkislögreglustjóra, Colas Ísland hf., Ístaks og Borgarverks undir viljayfirlýsingu um vitundarátakið.

Nánari upplýsingar:
Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vestursvæðis Vegagerðarinnar
Sími: 843 4902, netfang: palmi.th.saevarsson@vegagerdin.is
Hér má sjá upptöku frá fundinum: https://www.youtube.com/watch?v=pZODodGKDiA&t=910s