7 Júní 2007 12:00

Hinn 30. maí 2007 var haldinn fyrsti fundur sameiginlegrar almannavarnarnefndar í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu en það hafði áður verið samþykkt í sveitastjórnum að hafa eina sameiginlega nefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Hvolsvelli.  Að nefndinni standa sveitarfélögin í sýslunum en þau eru Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Ásahreppur.  Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi, einn fulltrúi frá svæðisstjórn björgunarsveitanna, einn fulltrúi frá Rauðakrossdeildunum og einn fulltrúi frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.  Auk þess lögreglustjóri, yfirlögregluþjónn og löglærður fulltrúi lögreglustjóra, sem jafnframt er ritari nefndarinnar.  Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri var kosinn formaður nefndarinnar og Sveinn Pálsson sveitarstjóri Mýrdalshrepps varaformaður.

Á þessum fyrsta fundi nefndarinnar var farið yfir hlutverk nefndarinnar sem er að skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns sem skapast hefur vegna hernaðarátaka, náttúruhamfara eða af annarri vá. Þær skulu gera áætlanir um skipulag almannavarna í samvinnu við ríkislögreglustjóra og almannavarnaráð.

Rætt var um helstu verkefni nefndarinnar s.s. viðbraðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu, áhættuskoðun, vettvangsstjórnarnámskeið og hver staðan væri í viðbragðs- og rýmingaráætlunum vegna Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls.

Meðfylgjandi mynd var tekinn í aðstöðu aðgerðastjórnarinnar í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

Nefndarmenn eru, frá vinstri talið:  Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri, Sigurður Hjálmarsson, fulltrúi Rauða Krossins í umdæminu, Kristín Þórðardóttir, fulltrúi lögreglustjóra, Sveinn Pálsson, sveitastjóri Mýrdalshrepps, Bjarni Daníelsson, sveitastjóri Skaftárhrepps, Bryndís F. Harðardóttir, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á svæði 16, Örn Þórðarson, sveitastjóri Rangárþings ytra, Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitastjóri Rangárþings eystra, Þórir B. Kolbeinsson, yfirlæknir ,Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Sveinn K Rúnarsson, yfirlögregluþjónn, Eydís Þ. Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps