25 Apríl 2003 12:00

Í tilefni 200 ára afmæli hinnar íslensku einkennisklæddu lögreglu er almenningi boðið í heimsókn á lögreglustöðina á Ísafirði milli kl.11:00 til 17:00 á morgun, laugardaginn 26. apríl 2003.

Í tilefni dagsins verða m.a. til sýnis á lögreglustöðinni einkennismerki lögreglunnar, bæði íslensk og frá lögregluliðum víðs vegar um heim.

Lúlli löggubangsi verður í móttökuliði lögreglunnar og mun hann heilsa upp á yngstu gestina.  Þá verður saga ísfirsku lögreglunnar rakin í stuttu máli.  Lögreglubifreiðar verða til sýnis og eru foreldrar hvattir til að koma með börn sín og jafnvel að taka ljósmyndir af börnunum á lögreglustöðinni og í bifreiðum lögreglunnar.

Heitt verður á könnunni eins og á góðum lögreglustöðum er siður.  Þá verður eitthvað til að bíta í fyrir börnin og Lúlli ætlar að gefa þeim eitthvað til minningar um heimsóknina.