19 September 2008 12:00

Undanfarna viku hafa verið hér á landi í náms- kynnisferð fimm lögreglumenn frá Sirene skrifstofunni í Litháen og einnig yfirmaður alþjóðadeildarinnar í Lichtenstein sem áformar þátttöku í Schengen samstarfinu innan tíðar. Hefur hann ákveðið að fyrirkomulag á alþjóðaskrifstofu RLS verði fyrirmynd við uppbyggingu sambærilegrar skrifstofu þar.

Litháísku lögreglumennirnir hafa kynnt sér starfsemi alþjóðadeildar RLS en einnig skipulag íslenskrar lögreglu. Hluti kynningarinnar var heimsókn í fangelsið á Litla-Hrauni, til lögreglunnar á Selfossi og á Keflavíkurflugvelli.

Í morgun áttu lögreglumennirnir fund með Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra þar sem m.a. var rætt um nánari lögreglusamvinnu Íslands og Litháen vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Fyrirhugaðar eru fleiri heimsóknir lögreglumanna frá Litháen í þeim tilgangi að efla samvinnuna.

 Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Arturas Similionis yfirmaður Sirene skrifstofunnar í Vilníus.

Hópurinn ásamt ríkislögreglustjóra og starfsmönnum alþjóðadeildar.